Töluverður vöxtur hefur verið í viðskiptasambandi Íslands og Bandaríkjanna að undanförnu og var árið í fyrra metár. Vöxturinn í ferðaþjónustunni spilar þar stórt hlutverk en meira en 400 þúsund ferðamenn komu til Íslands frá Bandaríkjunum eða tæplega fjórðungur af heildarfjöldanum, sem var 1,8 milljónir. Bandaríkjamenn voru fjölmennastir af öllum þjóðernum.
Heildarvirði vöruútflutnings til Bandaríkjanna óx einnig umtalsvert, eða um 18 prósent, samkvæmt upplýsingum á vef Hagstofu Íslands. Árið 2015 var umfang vöruútflutnings til Bandaríkjanna 35,4 milljarðar króna en í fyrra var það 41,7 milljarðar. Sjávarútvegur er með ríflega helming af öllum útflutningi og hefur ferskvöruútflutningur farið vaxandi.
Þrátt fyrir vöxtinn er útflutningur til Bandaríkjanna aðeins um 9 prósent af heildar útflutningi frá Íslandi en EES-svæðið er langsamlega stærsta markaðssvæðið fyrir íslenskar vörur, og munar þar ekki síst um að ál sem framleitt er á Íslandi fer að miklu leyti til Evrópu.
Í samantekt aðalræðismanns Íslands og viðskiptafulltrúa, Hlyns Guðjónssonar, sem er staðsettur í New York, kemur fram að umfang vöruútflutnings til Bandaríkjanna hafi ekki verið jafn hátt hlutfallslega í tólf ár, eða frá því árið 2004.