Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar, segir að stjórnarandstaðan hafi verið samstíga í því að færa góð verk ríkisstjórnarinnar upp á Sjálfstæðisflokkinn og þar sé að finna hluta skýringarinnar á því að fylgi Viðreisnar mælist jafn lítið og raun ber vitni. Viðreisn mældist með 3,1 prósent fylgi í nýlegri könnun miðla 365 og Björt framtíð, sem er þriðji flokkurinn í ríkisstjórninni, mældist með 3,8 prósent. Yrði það niðurstaða kosninga myndu hvorugir flokkanna komast inn á þing. Á sama tíma mælist Sjálfstæðisflokkurinn með 32 prósent fylgi, sem er yfir kjörfylgi.
Hanna Katrín var á meðal gesta á vettvangi dagsins í Silfrinu í dag. Hún sagði að stemmningin hjá stjórnarandstöðunni væri að draga Viðreisn niður í fylgi og það væri ekki skemmtilegt að fá svona lélegar kannanir. Hanna Katrín velti því fyrir sér að það gæti verið vegna þess að hún teldi Viðreisn vera meiri ógn en Sjálfstæðisflokkinn. Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, sagði Viðreisn og Björt Framtíð hafi gengið Sjálfstæðisflokknum algjörlega á hönd og að sá flokkur væri einráður í ríkisstjórninni.
Höfuðbólið ræður
Hanna Katrín benti á að ríkisstjórnin sé ekki nema um 80 daga gömul og það væri strax ljóst að sitjandi ríkisstjórn hefði leyst ýmis mál á annan hátt en orðið hefði ef Viðreisn væri ekki hluti af henni. Þar nefndi hún til að mynda sjómannaverkfall, sem Hanna Katrín teldi að síðasta ríkisstjórn hefði líklegast leyst með sértækri lausn, en útgerðarmenn fóru ítrekað fram á að íslenska ríkið tæki á sig hluta launahækkunar sjómanna með því að gera fæðispeninga skattfrjálsa. Hanna Katrín sagðist ekki hrædd við það að Viðreisn verði dæmd að verkum sínum síðar meir. Flokkurinn hefði komið fullt af stórum umbótamálum inn í stjórnarsáttmála, eins og breytingar á peningastefnu og varðandi Evrópumál.
Logi sagði það alrangt að stjórnarandstaðan væri að mála Viðreisn og Bjarta framtíð í ósanngjörnu ljósi. Ríkisstjórnin væri gagnrýnd harðlega, enda telji andstöðuflokkarnir hana vera óréttláta hægri stjórn. Viðreisn og Björt framtíð hafi hins vegar gengið Sjálfstæðisflokknum algjörlega á hönd og sá flokkur væri einráður í þessu stjórnarsamstarfi. „„Menn sjá kannski ekki tilganginn að styðja hjáleiðina þegar höfuðbólið ræður.“
Logi sagði að á þeim skamma tíma sem liðinn er frá því að ríkisstjórnin tók við hafi komið fram að þörf sé á grundvallarátökum um samfélagið. Um jöfnuð, um skiptingu gæða, um hvort að auðræðið verði endanlega til grundvallar í íslenskum samfélagi. Eða hvort hægt verði að ná að taka á þessum málum: fátækt, misskiptingu og óréttlæti.