HB Grandi tilkynnti um það í dag, að fyrirtækið hygðist hætta botnfiskvinnslu á Akranesi og sameina hana vinnslunni í Reykjavík. Samtals starfa 93 við botnfiskvinnslu á Akranesi og 270 í allt hjá fyrirtækinu á Akranesi.
Á blaðamannafundi í dag sagði forstjórinn, Vilhjálmur Vilhjálmsson, óljóst hve mörgum verði sagt upp á Akranesi eða hvort einhver störf verði færð til Reykjavíkur. Bæjarstjórinn, Sævar Freyr Þráinsson, og formaður Verkalýðsfélags Akraness, Vilhjálmur Birgisson, eru uggandi vegna þróunar atvinnumála á Akranesi, að því er fram kemur í viðtölum við þá á vef RÚV.
Vilhjálmur segir að helsta ástæðan fyrir þessari stefnubreytingu hjá fyrirtækinu sé styrkingin krónunnar, hækkun á innlendum kostnaði - þar með talið launum - og þá hefur verð á botnfiski staðið í stað í næstum tvö ár, sé horft til þeirra afurða sem unnar hafa verið á Akranesi.
Gengi hlutabréfa HB Granda lækkaði um ríflega fimm prósent í dag en markaðsvirði þessa næststærsta útgerðarfyrirtækis landsins, á eftir Samherja, er nú tæplega 59 milljarðar króna.
Hagnaður félagsins í fyrra um þrír milljarðar króna, eða um 26,2 milljónir evra, en hagnaðurinn árið 2015 var 5,3 milljarðar króna, eða 44,5 milljónir evra, sé miðað við gengi evru gagnvart krónu nú (evra = 120 ISK).
HB Grandi rekur, auk botnfiskvinnslunnar, skipaverkstæði, fiskimjölsverksmiðju, loðnuvinnslu og tvö dótturfyrirtæki, Norðanfisk og Vignir G. Jónsson á Akranesi. Stefnt er að frekari uppbyggingu og eflingu þess rekstrar á Akranesi, að því er segir í tilkynningu til kauphallar. „Í dag er hvorki hafnaraðstaða né aðstaða til vinnslu alls botnfiskafla ísfisktogara HB Granda á Akranesi en forsvarsmenn félagsins og Akranesbæjar eiga í viðræðum um mögulegar breytingar á því,“ segir í tilkynningu HB Granda.
Stærsti eigandi HB Granda, með ríflega þriðjungshlut, er Vogun hf., félag þar sem Kristján Loftsson er stærsti eigandi. Lífeyrissjóðir eiga einnig stóran hluta. Lífeyrissjóður verzlunarmanna er þeirra stærstur, en hann á 13,1 prósent hlut.
Aðalfundur HB Granda verður haldinn föstudaginn 5. maí í matsal félagsins við Norðurgarð í Reykjavík og hefst klukkan 17:00.
Stjórn félagsins leggur til að á árinu 2017 verði vegna rekstrarársins 2016 greiddar 1 kr. á hlut í arð til hluthafa, eða 1,8 milljarðar króna, (um 15,3 millj. evra á lokagengi ársins 2016), eða 3,8% af markaðsvirði hlutafjár í lok árs 2016. Arðurinn verði greiddur 31. maí 2017, að þvi er segir til í tilkynningu félagsins.