Stjórnir Virðingar og Kviku banka hafa tekið sameiginlega ákvörðun um að slíta viðræðum um sameiningu félaganna. Í fréttatilkynningu kemur fram að ákvörðun um að enda samrunaferlið, sem hófst formlega 28. nóvember síðastliðinn, sé tekin að vel ígrunduðu máli og er það sameiginlegt álit stjórna beggja félaganna að fullreynt sé. „Starfsfólk Virðingar og Kviku hefur lagt hart að sér við undirbúning samrunans og hefur sú vinna gengið afar vel þrátt fyrir þessa niðurstöðu.“
Stjórnir Virðingar og Kviku undirrituðu í nóvember 2016 viljayfirlýsingu um að undirbúa samruna félaganna tveggja undir nafni Kviku. Í aðdraganda sameiningar átti að lækka eigið fé Kviku um 600 milljónir króna og greiða lækkunina til hluthafa bankans. Hluthafar Kviku áttu eftir samruna að eiga 70 prósent hlut í sameinuðu félagi og hluthafar Virðingar 30 prósent hlut.
Í tilkynningunni vegna undirritunar viljayfirlýsingar um samruna sagði: „Með sameiningu Kviku og Virðingar yrði til öflugt fjármálafyrirtæki sem væri leiðandi á fjárfestingabankamarkaði. Sameinað félag yrði einn stærsti aðili í eignastýringu á Íslandi með um 220 milljarða króna í stýringu og fjölda sjóða í rekstri s.s. verðbréfasjóði, fjárfestingarsjóði, framtakssjóði, fasteignasjóði, veðskuldabréfasjóði og ýmsa fagfjárfestasjóði. Auk þess myndi sameinað félag ráða yfir öflugum markaðsviðskiptum, fyrirtækjaráðgjöf, sérhæfðri lánastarfsemi og einkabankaþjónustu.
Heimildir Kjarnans herma að erfiðlega hafi gengið í viðræðunum undanfarin misseri og að formlegt slit þeirra komi fáum sem að þeim komu mikið á óvart.
Kvika banki hagnaðist um tæpa tvo milljarða króna í fyrra eftir skatta og arðsemi eiginfjár hjá bankanum var 34,7 prósent. Eignir Kviku drógust saman á árinu um þrjú prósent og voru 59,5 milljarðar króna um síðustu áramót. Eigið fé bankans var 7,3 milljarðar króna og jókst á árinu þrátt fyrir að hlutafé hafi verið lækkað um milljarð króna á fyrri hluta síðasta árs. Eiginfjárhlutfallið var 20,6 prósent í lok árs 2016.
Stærstu hluthafar bankans eru í dag Lífeyrissjóður verslunarmanna, Brimgarðar ehf. ( Í eigu Gunnars Þórs Gíslasonar og systkina og Cold Rock Investment Ltd.), K2B fjárfestingar (í eigu Svanhildar Nönnu Vigfúsdóttur), Varða Capital ehf. ( í eigu Gríms A. Garðarssonar, Edward Schmidt og Jónasar H. Guðmundssonar), félagið Sigla ehf. (í eigu Tómasar Kristjánssonar, Finns Reys Stefánssonar og Steinunnar Jónsdóttur), og Grandier ehf. (í eigu Donald McCarthy, Þorsteins Gunnars Ólafssonar og Sigurðar Bollasonar).
Virðing sameinaðist Auði Capital í byrjun árs 2014. Hluthafar Virðingar eru félag í eigu Kristínar Pétursdóttur, Lífeyrissjóður Verslunarmanna, Sameinaði lífeyrissjóðurinn, félag í eigu Guðbjargar Eddu Eggertsdóttur, Stafir lífeyrissjóðir, félag í eigu Ármanns Þorvaldssonar og meðfjárfesta, félag í eigu Vilhjálms Þorsteinssonar og félag í eigu Kristínar Jóhannesdóttur og Ásu Karenar Ásgeirsdóttur.