Stjórnvöld hafa til skoðunar að beita frekari úrræðum til þess að takmarka skammtíma útleigu á íbúðum, til dæmis í gegnum Airbnb. Þetta segir Karl Pétur Jónsson, aðstoðarmaður félags- og húsnæðismálaráðherra, Þorsteins Víglundssonar, í viðtali við Fréttablaðið í dag.
Þetta er ein þeirra tillagna sem rætt er um í starfshópi fjögurra ráðuneyta til að bregðast við aðstæðum á íbúðamarkaði, en mikil vöntun er á íbúðum inn á markað. Þjóðskrá hefur metið þörfina upp á um átta þúsundir íbúðir, miðað við sögulegar forsendur og þróun fyrri ára.
Áformað er að kynna tillögur hópsins öðrum hvorum megin við páska, að því er segir í Fréttablaðinu. Karl Pétur segir að í dag sé verið að ræða um 20 hugmyndir sem verði fækkað niður í tíu. „Ég get staðfest það að einn af þeim hlutum sem er verið að skoða eru frekari takmarkanir á Airbnb. En það er ekki komið á það stig að það sé hægt að ræða einhverjar frekari útfærslur,“ segir Karl Pétur.
Næstum sjö af hverjum tíu sem afstöðu taka í nýrri könnun Fréttablaðsins, Stöðvar 2 og Vísis telja að takmarka eigi leigu á íbúðum til ferðamanna.
Þriðjungur svarar slíkri spurningu hins vegar neitandi. Í nýlegri skýrslu Íslandsbanka um ferðaþjónustuna kemur fram að á síðastliðnu ári var meðalfjöldi virkra gistirýma á Airbnb í Reykjavík 2.000, sem er tvöfalt fleiri en árið á undan.
Fasteignaverð hefur hækkað um 18,6 prósent á síðustu tólf mánuðum, og gera flestar spár ráð fyrir um 20 til 30 prósent hækkun til viðbótar, á næstu tveimur til þremur árum.