Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, segir að það komi ekki til greina að lækka veiðigjöld á sjávarútveg. Ríkisstjórnin muni ekki grípa til sértækra lausna til að leysa tímabundin vandamál atvinnugreina. Mun frekar sé hún fylgjandi því að veiðgjöld verði hækkuð og þau látin renna inn í stöðugleikasjóð eða auðlindasjóð sem geti brugðist við þegar erfiðar aðstæður komi upp. Þetta segir ráðherrann í samtali við Kjarnann.
Teitur Björn Einarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagði í dag að hann vildi að lækkun á veiðigjöldum á sjávarútvegsfyrirtæki verði skoðuð. Veiðigjöld hafa lækkað um átta milljarða króna á örfáum árum á sama tíma og sjávarútvegur sem heild hefur farið í gegnum nær fordæmalaust hagnaðarskeið. Eigið fé atvinnugreinarinnar jókst um rúmlega 300 milljarða króna frá árinu 2008 til ársloka 2015 þrátt fyrir að eigendur útgerða hefðu greitt sér út 54,3 milljarða króna í arð á tímabilinu.
Teitur tók til máls undir liðnum störf þingsins á Alþingi í dag. Þar fjallaði hann um þá ákvörðun HB Granda að hætta bolfisksvinnslu í starfsstöð sinni á Akranesi og sagði:
„Í stærra samhengi hluta er því miður hætt við því að þetta sé ekki einangrað tilvik sem um ræðir. Mikil hækkun launa, veruleg styrking krónunnar, háir vextir setja fjölmargar fiskvinnslur í verulegan vanda víða um land og það er ekki hægt að horfa fram hjá því að gjöld á atvinnuveginn umfram aðrar útflutningsgreinar eru íþyngjandi, gjöld sem leggjast sérstaklega þungt á lítil og meðalstór fiskvinnslufyrirtæki á landsbyggðinni. Ef það er raunverulegur vilji til þess að treysta atvinnuskilyrði, auka starfsöryggi starfsfólks og auka byggðafestu hlýtur lækkun þeirra að vera einn valkostur sem er í stöðunni.“