Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda, sem haldinn er í Bændahöllinni við Hagatorg í dag og á morgun, hefur samþykkt stefnu samtakanna til næstu tíu ára. Meðal þess sem hefur verið samþykkt er að kolefnisjafna skuli alla greinina „eins fljótt og auðið er“ að því er segir í tilkynningu frá Landssamtökum sauðfjárbænda.
Stefnan er í tíu liðum. Einnig kemur fram í stefnunni að stefnt sé að því að allar afurðir skuli vera rekjanlegar og að samtökin skuli sjálf setja sér umhverfisstjórnunarstefnu. „Með þessu eru festar í sessi þær áherslur sem hafa rutt sér til rúms í starfsemi samtakanna og íslenskri sauðfjárrækt á undanförnum misserum og árum. Tilgangurinn er að efla íslenska sauðfjárrækt í sátt við samfélag og náttúru þar sem sérstaða, sjálfbærni, fjölbreytni og verðmætasköpun eru höfð að leiðarljósi,“ segir í tilkynningu samtakanna.
Á aðalfundinum var einnig samþykkt sérstök neytendastefna á fundinum. Í henni kemur meðal annars fram að sauðfjárbændur muni sérstaklega leggja áherslu á að neytendur fái góðar og réttar upplýsingar um vörur á markaði.
„Íslenskir sauðfjárbændur eru stoltir af því að framleiða hágæða afurðir fyrir opnum tjöldum með umhverfisvænum og náttúrulegum hætti. Þeir telja mikilvægt að neytendur fái réttar og góðar upplýsingar hvar sem þeir kaupa matvörur, hvort sem er í verslunum, á veitingastöðum eða í mötuneytum. Þetta er grunnurinn að heiðarlegri samkeppni og raunverulegu valfrelsi neytenda. Þetta eru sameiginlegir hagsmunir bænda og neytenda. Íslenskir sauðfjárbændur vilja að neytendur viti sem mest um þær afurðir sem bændur leggja alúð við að framleiða í sátt við náttúru og samfélag. Þess vegna setja þeir sér nú neytendastefnu í fyrsta sinn undir yfirskriftinni Okkar afurð – okkar mál. Þessi stefna verður lögð til grundvallar í allri samvinnu bænda við þá sem vinna og selja afurðirnar, almenning, samtök neytenda og stjórnvöld,“ segir í neytendastefnunni.