Verðmat sem Icora Partners gerði fyrir hóp lífeyrissjóða á Arion banka bendir til að vogunarsjóðirnir fjórir sem keyptu 29 prósent hlut í bankanum fyrr í þessum mánuði hafi fengið hlutinn á undirverði.
Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.
Eftir kaupin er Kaupskil, félag í eigu Kaupþings, enn stærsti eigandi Arion banka með 57,9 prósent hlut. Íslenska ríkið á 13 prósent en sjóðirnir Attestor Capital LLP (í gegnum Trinity Invesment Designated Acitivity Company) og Taconic Capital Advisors UK LLP (í gegnum TCA New Sidecar III s.a.r.l.) eiga nú 9,99 prósent hlut hvor. Þá mun Sculptor Investments s.a.r.l. (félag tengt Och-Ziff Capital Management Group) eiga 6,6 prósent hlut og Goldman Sachs International 2,6 prósent hlut (í gegnum ELQ Investors II Ltd.).
Í viðskiptunum var miðað við gengið 0,79 af bókfærðu eigin fé bankans en verðmatið, sem vitnað er til í Morgunblaðinu, segir bankann standa undir genginu 0,85 af bókfærðu eigin fé.
Sé miðað við mat Icora Partners á bankanum er markaðsverð Arion banka nærri 180 milljarðar og eignarhlutur ríkissjóðs um 23,4 milljarðar, að því er fram kemur í umfjöllun um sölu Arion banka í ViðskiptaMogganum í dag.
Eigið fé Arion banka var í lok árs í fyrra um 211 milljarðar króna.