Már Guðmundsson sagði í ítarlegri ræðu sinni á 56. ársfundi Seðlabanka Íslands í dag, að svo kynni að fara að „tiltæk þjóðhagsvarúðartæki yrðu virkjuð“ til að draga úr áhættu sem væri farin að myndast á fasteignamarkaði.
Verðið rýkur upp
Fasteignaverð hefur rokið upp að undanförnu en á síðustu tólf mánuðu hefur það hækkað um 18,6 prósent. Ein meginástæðan er sú að mikil vöntun er á íbúðum inn á markað, en Þjóðskrá hefur nefnt að um átta þúsund íbúðir vanti, eða sem nemur um fjórfaldri árlegri þörf í venjulegu árferði, sé horft til fólksfjölgunar á höfuðborgarsvæðinu.
Samhliða mikilli kaupmáttaraukningu almennings, meðal annars vegna launahækkana á tíma lágrar verðbólgu, hefur fasteignaverðið hækkað hratt og eftirspurn aukist jafnt og þétt á síðustu mánuðum. Þá hefur mikill vöxtur í ferðaþjónustu einnig aukið eftirspurn eftir íbúðum, en eins og áður segir, þá eru nú uppi aðstæður þar sem er sár vöntun eftir eignum á markað.
Mikil uppbygging er nú að eiga sér stað og hafa sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu sagt, að jafnvægi ætti að nást á markaðnum á næstu þremur til fjórum árum, ef öll áform ganga eftir. „Því er ekki að leyna að vaxandi áhyggjur eru af aðstæðum á fasteignamarkaði og til þess kann að koma á næstunni að tiltæk þjóðhagsvarúðartæki verði virkjuð til að draga úr áhættu sem tengist þeim,“ sagði Már meðal annars í ræðu sinni. Ekki var þó nánar útlistað í ræðunni, hvaða varúðartæki það væru sem hægt væri að grípa til, en vitnað til þess að í útgáfu Fjármálastöðugleika, rits Seðlabankans, yrði fjallað ítarlega um áhættu í fjármálakerfinu. Ritið kemur næst út í næstu viku.
Grípa tækifærin
Hann sagði stöðu efnahagsmála hafa gjörbreyst á undanförnu ári til hins betra. Þrátt fyrir mikinn hagvöxt í fyrra, sem var 7,2 prósent, hafi tekist að halda verðbólgu í skefjum og mikil spennan væri í hagkerfinu. Innviðir væru hins vegar mun sterkari en þeir voru áður en hremmingarnar gengu yfir í kringum hrun fjármálakerfisins. Þau skref sem hefðu verið stigin í átt að losun fjármagnshafta hefðu gengið vel, og nú var íslenskt hagkerfi um margt á tímamótum.
„Uppgjöri vegna fjármálakreppunnar er að langmestu leyti lokið. Við göngum nú á vit nýrra tíma óheftra fjármagnshreyfinga. Í því felast bæði tækifæri og áhætta. Við þurfum að grípa tækifærin, greina áhættuna og grípa til viðeigandi ráðstafana. Seðlabankinn mun eftir bestu getu stuðla að því að svo verði þar sem hann á hlut að máli,“ sagði Már.