Kjararáð hefur úrskurðað að mánaðarlaun Hauks Oddssonar, forstjóra Borgunar, skuli vera rúmar 1,8 milljónir króna. Íslenska ríkið er stærsti eigandi Borgunar með ríflega 60 prósent hlut, í gegnum dótturfélag sitt Íslandsbanka.
Í úrskurðinum segir að horft sé til þess að samræmis sé gætt þegar úrskurðað er um laun þeirra sem undir ráðið falla. „Í 8. gr. laga um kjararáð segir að það skuli við úrlausn mála gæta innbyrðis samræmis í
starfskjörum þeim sem það ákveður, og að þau séu á hverjum tíma í samræmi við laun í
þjóðfélaginu hjá þeim sem sambærilegir geta talist með tilliti til starfa og ábyrgðar. Við
ákvörðun sína skuli kjararáð gæta þess að föst laun fyrir dagvinnu, annarra en forseta Íslands,
verði ekki hærri en föst laun forsætisráðherra samkvæmt 3. gr. Við ákvörðun launakjara
samkvæmt 4. gr. laganna skuli sérstaklega gæta samræmis milli þeirra og þeirra kjara hjá
ríkinu sem greidd eru á grundvelli kjarasamninga annars vegar og ákvarðana kjararáðs
samkvæmt 3. gr. hins vegar. Þá skuli kjararáð ætíð taka tillit til almennrar þróunar kjaramála á
vinnumarkaði. Í 10. gr. laganna segir að ráðið skuli taka mál til meðferðar þegar því þyki
þurfa og ætíð ef orðið hafa verulegar breytingar á þeim launum í þjóðfélaginu sem höfð skulu
til viðmiðunar samkvæmt lögunum eða á störfum þeirra sem úrskurðarvald ráðsins tekur til.
Kjararáð hefur ekki áður ákveðið forstjóra Borgunar hf. laun. Með vísan til þess innbyrðis
samræmis sem kjararáði ber að hafa að leiðarljósi og áður er gerð grein fyrir er við ákvörðun
launakjara forstjóra Borgunar hf. horft til launakjara forstöðumanna annarra fjármála- og
lánastofnana sem undir kjararáð heyra, svo sem bankastjóra Íslandsbanka hf.,“ segir í úrskurðinum, en áður hafði ráðið úrskurðað um laun Birnu Einarsdóttur, og voru laun hennar lækkuð um 40 prósent frá því sem var áður.
Samkvæmt ársreikningi Borgunar fyrir árið 2015 námu laun og þóknanir til Hauks það ár rúmum þremur milljónum á mánuði. Stjórn Borgunar lagðist gegn því að laun forstjórans lækkuðu verulega, að því er segir í úrskurðinum, og var slíkt sagt fara gegn hagsmunum fyrirtækisins.
Málið hefur verið í vinnslu síðan í október á síðasta ári þegar stjórn Borgunar var gefin kostur á leggja fram greinargerð vegna væntanlegrar ákvörðunar kjararáðs um launakjör forstjóra Borgunar. Stjórnin lagðist alfarið gegn launalækkuninni og það sama gerði Haukur Oddsson, forstjóri Borgunar.
Þetta hafði engin áhrif á ákvörðun Kjararáðs. Horft var til annarra fjármála-og lánastofnana sem heyra undir kjararáð, meðal annars launakjara bankastjóra Íslandsbanka, eins og áður segir, og komst ráðið í framhaldinu að þeirri niðurstöðu að launin ættu að vera 1,8 milljónir á mánuði.
Nákvæmtlega tilgreint voru ákvörðunarorð ráðsins sme hér segir:
„Mánaðarlaun forstjóra Borgunar hf. skulu vera samkvæmt launaflokki 502-140, nú 1.094.455 krónur. Að auki skal greiða honum 75 einingar á mánuði fyrir alla yfirvinnu og álag er starfinu fylgir. Eining er 1% af launaflokki 502-136, nú 9.572 krónur.
Einingar greiðast alla mánuði ársins, einnig í sumarleyfi. Af því leiðir að ekki er greitt orlofsfé á einingar. Laun eru miðuð við fullt starf þannig að ekki komi til frekari greiðslna nema kjararáð úrskurði um það sérstaklega.
Um almenn starfskjör forstjóra Borgunar hf. gilda reglur kjararáðs um starfskjör
framkvæmdastjóra félaga sem eru að meirihluta í eigu ríkissjóðs og dótturfélaga þeirra frá 17.
nóvember 2015.