Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segir að fólk í ferðaþjónustu sé „í sjokki“ yfir fyrirætlunum stjórnvalda um að færa stærstan hluta ferðaþjónustunnar í efra þrep virðisaukaskatts. Þetta kom fram í viðtali við hana í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun. Staðan sé grafalvarleg og greinin hafi „stórkostlegar áhyggjur af“ henni.
Helga sagði að Samtök ferðaþjónustunnar hefðu fengið að vita af fyrirætlunum stjórnvalda klukkutíma áður en tilkynnt var um þær opinberlega. Hún gagnrýndi mjög samráðsleysi við greinina og sagði enga umræðu hafa farið fram um hana. Þá liggi ekki fyrir nein greining á áhrifum hennar.
„Við erum langt frá því að vera ánægð með þetta og við bara teljum að þetta sé reiðarslag fyrir ferðaþjónustuna.“ Hún sagði að vissulega hafi ferðamönnum fjölgað mjög, en víða úti á landi sé mikið verk óunnið og hægt að efla ferðaþjónustuna enn frekar.
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra greindi frá áformunum um miðja síðustu viku. Hann spurði hvort það væri réttlætanlegt að hafa greinina í undanþáguþrepinu, lægra þrepi virðisaukaskatts, í þeim tilgangi að styðja við og auka viðgang hennar.
Í fjármálaáætlun Benedikts Jóhannessonar fjármálaráðherra er svo nánar vikið að þessu. Þar kemur fram að breytingin sé hluti af heildstæðum breytingum á virðisaukaskattskerfinu. „Breytingin tekur gildi um mitt ár 2018 og greinin hefur því 15 mánuði til að laga sig að þessari breytingu, frá kynningu til gildistöku. Að því marki sem breytingin hefur áhrif á fjölda ferðamanna er það til að tempra vöxt sem hefur verið hraðari en innviðauppbygging ræður við.“
Það er á grundvelli þessarar hækkunar á virðisaukaskatt í ferðaþjónustu sem hægt verður að lækka virðisaukaskattinn úr 24 prósentum í 22,5 prósent.
„Umsvif í greininni hafa mikil áhrif á náttúruna, samfélagið, vinnumarkaðinn og flesta innviði. Til viðbótar er hætt við að lítil opin hagkerfi, líkt og hið íslenska, verði berskjaldaðra gagnvart áföllum eftir því sem aukning útflutningstekna landsins takmarkast við einstakar greinar. Ef til þess kæmi, t.d. vegna of mikillar hækkunar á raungenginu, að verulega drægi úr komum ferðamanna gæti afleiðingin orðið efnahagssamdráttur, aukið atvinnuleysi og lækkun eignaverðs,“ segir einnig í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar.
Náttúra Íslands sé helsta ástæða þess að ferðamenn kjósi að sækja landið heim og það sé því mikið kappsmál að landið og náttúran verði vernduð svo hámarka megi virði hennar til lengri tíma. „Jafnframt er það hagur allra að búa við sterka
samfélagslega innviði. Það er því ekki endilega eftirsóknarvert að hámarka fjölda erlendra
ferðamanna á hverjum tíma. Þess vegna er mikilvægt að skapa umgjörð og hvata sem eru til
þess fallin að draga úr átroðningi og tryggja sjálfbæra uppbyggingu ferðaþjónustu til lengri
tíma litið.“