Margir hafa leitað til hjónanna Emilíu Fannbergsdóttur og Eiríks Einarssonar en þau hafa ákveðið að flytja til Spánar í stað þess að leita sér að nýju leiguhúsnæði í Reykjavík.
Þetta kemur fram í umfjöllun í Morgunblaðinu í dag, þar sem rætt er við Emilíu. Hún segir að mun hagstæðari leiga og betri lífskjör fyrir þau, hafi leitt til þess að þau tóku ákvörðun um að flytja úr landi.
„Við flytjum til Spánar í haust þegar leigusamningurinn rennur út hjá okkur og það hafa margir haft samband, sem eru í sömu hugleiðingum,“ segir Emilía en ákvörðunina tóku þau eftir tveggja mánaða dvöl á Spáni í vetur.
Kostnaður af leigu, rekstri á bíl og uppihaldi er að sögn Emilíu svipaður og mánaðarleiga á sæmilegri íbúð í Reykjavík.
Aðstæður á fasteignamarkaði eru erfiðar fyrir þá sem eru að leita sér að íbúð, þessa dagana. Fasteignaverð hefur hækkað um 18,6 prósent á síðustu tólf mánuðum og sár vöntun er á íbúðum inn á markað til að mæt mikilli eftirspurn.
Útlit er fyrir að mörg ár muni taka að ná jafnvægi á höfuðborgarsvæðinu, en Þjóðskrá hefur áætlað, miðað við sögulegar forsendur, að það vanti um átt þúsund íbúðir inn á markað til að anna eftirspurn.