Bjarni Benediktsson forsætisráðherra hefur ráðið Pál Ásgeir Guðmundsson sem aðstoðarmann sinn. Páll Ásgeir hefur undanfarin 14 ár starfað hjá Gallup og síðustu sjö ár hefur hann gegnt starfi sviðsstjóra markaðs- og viðhorfsrannsókna hjá fyrirtækinu.
Í tilkynningu segir að Páll Ásgeir sé stúdent frá Verzlunarskóla Íslands og með B.A. próf í sálfræði frá Háskóla Íslands. Á árunum 1999-2001 starfaði hann við markaðsmál þar til hann var ráðinn framkvæmdastjóri Telmar á Íslandi en því starfi gegndi hann þar til félagið var sameinað Gallup 2003. „Páll Ásgeir hefur unnið með mörgum af stærstu fyrirtækjum landsins auk þess að leiða rannsóknir á viðhorfum landsmanna til ýmissa málefna. Páll Ásgeir er fæddur í Reykjavík 1973, eiginkona Páls er Elsa Nielsen, grafískur hönnuður, og eiga þau þrjú börn.“
Svanhildur Hólm Valsdóttir var fyrir aðstoðarmaður Bjarna. Hún gengdi einnig þeirri stöðu þegar Bjarni var fjármála- og efnahagsráðherra á síðasta kjörtímabili.