Einkafjárfestar hafa nú náð völdum í VÍS. Félagið er 23,6 milljarða króna virði og hefur virðið hækkað um 31 prósent á síðustu tólf mánuðum.
En undanfarin misseri hafa miklar deilur verið í hluthafahópnum og stjórn, að því er fram kemur í fréttaskýringu í Markaðnum í Fréttablaðinu í dag.
Deilurnar snúast meðal annars um ólíkar áherslur einkafjárfesta í félaginu og síðan lífeyrissjóðanna. Stærsti hluthafi VÍS er Lífeyrissjóður verslunarmanna með tæplega 10 prósent hlut.
Í Markaðnum segir að með kjöri Svanhildar Nönnu Vigfúsdóttur, fjárfestis, sem stjórnarformanns, hafi einkafjárfestum tekist að ná völdum í félaginu. Herdís Fjeldsted, sem sagði sig nýverið úr stjórn VÍS, taldi sig hafa stuðning sem stjórnarformaður í félaginu, en henni var teflt fram af Lífeyrissjóði verslunarmanna.
„Með kjöri Svanhildar Nönnu Vigfúsdóttur, fjárfestis og eins af stærstu hluthöfum VÍS, sem formanns stjórnar tryggingafélagsins í síðasta mánuði hefur einkafjárfestum í hluthafahópnum tekist að ná völdum í stjórn fyrirtækisins. Mikil átök hafa sett mark sitt á störf stjórnar VÍS á undanförnum misserum, sem hafa öðrum þræði snúist um ólíkar áherslur annars vegar fulltrúa lífeyrissjóðanna og hins vegar helstu einkafjárfesta félagsins, og birtist meðal annars í því að samtals hafa fimmtán manns setið í stjórn frá því í ársbyrjun 2015 og fjórir einstaklingar gegnt starfi stjórnarformanns yfir sama tímabil. Jafn tíð stjórnarskipti á svo skömmum tíma er einsdæmi á meðal félaga sem eru skráð í Kauphöllinni.“
„Í aðdraganda aðalfundar VÍS var ljóst að ákveðinn hópur hluthafa, sem samanstóð einkum af hjónunum Svanhildi og Guðmundi Erni Þórðarsyni, Sigurði Bollasyni, fjárfestingafélaginu Óskabeini og sjóðastýringarfyrirtækinu Stefni, vildi ná fram breytingum á stjórn og stefnu félagsins. Þessi hópur á samanlagt um 27 prósenta hlut í VÍS. Þá hafði Svanhildur uppi áform að taka við sem formaður af Herdísi Dröfn Fjeldsted, sem hefur verið studd af Lífeyrissjóði verslunarmanna, stærsta hluthafa VÍS, en hún hafði gegnt þeirri stöðu frá því í nóvember 2015. Svanhildur, en hún og eiginmaður hennar komu fyrst inn í hluthafahóp VÍS 2014 eftir að hafa selt Skeljung skömmu áður með milljarða hagnaði, átti í því skyni fundi með flestum af stærstu hluthöfum VÍS þar sem hún útlistaði sínar áherslur og upplýsti þá að hún myndi sækjast eftir formennsku,“ segir í Markaðnum.
Á síðustu tveimur árum hafa verið fimmtán stjórnarmenn í félaginu, en samkvæmt því sem fram kemur í Markaðnum þá hefur VÍS áhuga á því að auka við hlut sinn í bankanum Kviku, en fyrir á félagið 22 prósent.