Ökutæki á Íslandi eru orðin fleiri en íbúar á landinu, samkvæmt upplýsingum úr Árbók bílgreina fyrir árið 2016, og vitnað er til í Morgunblaðinu í dag.
Heildarfjöldi skráðra ökutækja á Íslandi í árslok 2016 var 344.664, en þannig var fleiri en eitt ökutæki skráð á hvern íbúa að meðaltali á síðasta ári. Íslendingar eru nú 338 þúsund, samkvæmt nýjustu tölu Hagstofu Íslands.
Fjölgun ökutækja frá fyrra ári var um sex prósent og hefur undanfarin ár verið mun hraðari en fjölgun íbúa á sama tíma. Eitt af því sem hefur miklu skipt í þeim efnum er mikill fjöldi bílaleigubíla, en samkvæmt skýrslu Íslandsbanka um ferðaþjónustuna þá hafa viðskipti með bílaleigubíla verið 43 prósent af öllum bílaviðskiptum frá árinu 2008.
Alls nam velta bílgreina 160 milljörðum króna í fyrra og jókst um 20 prósent frá árinu áður. Þá segir að árið 2016 hafi verið metár í nýskráningum bíla, að því er fram kemur í ViðskiptaMogganum í dag.