ASÍ spáir áframhaldandi „kröftugum hagvexti á þessu ári“ og að uppsveiflan sé í hámarki um þessar mundir. Gert ráð fyrir 5,9 prósent hagvexti á þessu ári en hann var 7,2 prósent í fyrra.
Í nýrri hagspá sambandsins segir að til staðar séu hættumerki meðal annars vegna þeirra aðstæðna sem nú eru á fasteignamarkaði, þar sem skortu á eignum er farin að valda töluverðum vandræðum.
„Ákveðin hættumerki eru til staðar og óvissa hefur aukist frá síðustu spá hagdeildar m.a. vegna þeirra aðstæðna sem hafa myndast á húsnæðismarkaði og mögulegra áhrifa úrskurðar kjararáðs. Ennfremur eru efnahags- og verðlagshorfur háðar þróun ferðaþjónustunnar í meira mæli en áður. Spáin gerir ráð fyrir auknum fjölda ferðamanna þó hægja muni á vextinum en sú forsenda ræður miklu um þróunina framundan.“
„Við spáum kröftugum vexti þjóðarútgjalda á þessu ári þar sem einkaneysla eykst um 7,2% og fjármunamyndun um 13,5%. Vöxtur einkaneyslunnar skýrist af auknum kaupmætti og traustari fjárhagsstöðu heimilanna sem hafa nýtt svigrúmið til að greiða niður skuldir, endurnýja varanlegar neysluvörur og bíla og ferðast erlendis. Það hægir á fjárfestingu atvinnuveganna en aukin íbúðafjárfesting og opinber fjárfesting styðja við fjárfestingastigið á spátímanum,“ segir í spá ASÍ.
Þá er tekið fram að ASÍ geri ráð fyrir því að gengi krónunnar styrkist á spátímanum. og að verðbólga verði áfram undir 2,5 prósent verðbólgumarkmiði Seðlabankans. „Hægari styrking krónunnar síðari hluta spátímans eykur verðbólguþrýsting og að óbreyttu verður verðbólga um 2,4% á næsta ári og 2,6% árið 2019. Styrking krónunnar þrengir að útflutningsgreinum og við teljum brýnt að áhrif styrkingar krónunnar á samkeppnisstöðu annarra atvinnugreina verði metin,“ segir í samantekt ASÍ.
„ASÍ telur mikilvægt að bregðast við á leigumarkaði þar sem of stór hluti fólks býr við ótryggt húsnæði og íþyngjandi húsnæðiskostnað. Tryggja þarf ungu fólki og tekjulágu öruggt leiguhúsnæði og gera leiguhúsnæði að raunverulegum valkosti í búsetu. Til þess er brýnt að hraða uppbyggingu leiguíbúða í nýja Almenna íbúðakerfinu enn frekar og fjölga íbúðum um a.m.k. 1.000 á ári næstu árin í stað þeirra 600 sem nú eru áformuð á ári fram til ársins 2019,“ segir í spá ASÍ.