Skráð félög í Kauphöll Íslands munu greiða um 16 milljarða króna í arð til hluthafa sinna í ár vegna frammistöðu félaganna á árinu 2016. Séu kaup á eigin bréfum tekin með má ætla að greiðslur til hluthafa þeirra verði um 26 milljarðar króna. Arðgreiðslurnar eru um 18 prósent lægri en þær voru á árinu 2016 þegar þær voru 19,6 milljarðar króna. Þetta kemur fram í nýrri greiningu frá Greiningardeild Arion banka.
Þar segir einnig að hluthöfum í skráðum félögum fækki á milli ára. Þeir eru nú um 23 þúsund en fækkaði um sex prósent á síðasta ári. Þeim fjölgaði einungis í fimm félögum af 17. Því virðist hinn mikli aukni þjóðhagslegi sparnaður sem er að eiga sér stað ekki skila sér inn á innlendan verðbréfamarkað. Áhugi erlendis frá virðist hins vegar vera að aukast. Á fyrstu mánuðum ársins 2017 hafa erlendir fjárfestar komið með meira fjármagn inn til að kaupa íslensk hlutabréf en þeir gerðu allt árið 2016.
Alls nam samanlagður hagnaður þeirra félaga sem skráð eru í Kauphöllina 56,5 milljörðum króna á síðasta ári. Arðgreiðslur eru áætlaðar, samkvæmt mati Arion banka, 16,1 milljarðar króna og til stendur að endurkaup á bréfum hluthafa muni nema um 9,9 milljörðum króna. Af þeim 17 félögum sem skráð eru á Aðallista Kauphallar ætla 13 að greiða arð eða kaupa eigin bréf af hluthöfum sínum.
Arðgreiðslur skráðra félaga náðu eftirhrunshámarki á árunum 2015 og 2016. Á hvoru ári fyrir sig fengu hluthafar greidda 19,6 milljarða króna. Í fyrra keyptu félögin líka eigin bréf fyrir 10,9 milljarða króna og því var samtala þess sem greitt var til hluthafa 30,5 milljarðar króna.