Uppsafnaður mismunur á framboði og eftirspurn húsnæðis á Íslandi er um 4.600 íbúðir, sé tekið tillit til þess að um 1.600 íbúðir séu á hverjum tíma í skammtímaútleigu til ferðamanna. Heildarþörf á uppbyggingu íbúðarhúsnæðis á næstu þremur árum er talin vera um níu þúsund íbúðir. Þetta kemur fram í nýrri greiningu sem Íbúðalánasjóður hefur unnið að beiðni Þorsteins Víglundssonar, félags- og jafnréttismálaráðherra, um vöntun á húsnæðismarkaði á Íslandi.
Þar segir enn fremur að fjölgun eigna hafi ekki haldist í hendur við mannfjöldaþróun í landinu á undanförnum árum. Greining sjóðsins er hluti af ítarlegri greiningu á stöðu húsnæðismála á landinu sem Íbúðalánasjóður annast fyrir aðgerðahóp um húsnæðisvandann sem fjórir ráðherrar ríkisstjórnarinnar sitja í. Hópurinn mun skila tillögum um úrbætur í húsnæðismálum í maí.
Í niðurlagi greiningarinnar segir að þörf sé á að byggja 3.079 íbúðir í ár, 2.121 á næsta ári og 2.169 árið 2019. „Mikilvægt er þó að fara ekki of geyst af stað í uppbyggingu þar sem við viljum ekki lenda aftur í ástandi líkt og var hér á síðustu uppsveifluárum þar sem byggt var langt umfram þörf. Einnig er mikilvægt að leggja mat á það hvers konar íbúðir er einna mest þörf fyrir og hvar á landinu.“