Lækka þarf vexti og afnema að fullu höft til að stöðva hækkun á gengi krónunnar „sem getur annars ekki endað með öðru en ósköpum.“ Þetta segir Björgólfur Jóhannsson, fyrrverandi formaður Samtaka atvinnulífsins,(SA) í ávarpi í ársskýrslu samtakanna sem birt var í dag. Björgólfur ákvað að hætta formennsku í SA eftir síðasta aðalfund, sem fór fram í mars. Þar gagnrýnir hann einnig harðlega fjármálaáætlanir ríkissjóðs sem geri ráð fyrir að útgjöld vaxi jafnt of þétt þannig að hann eyði jafnharðan þeim tekjum sem ríkissjóður aflar. „Ekkert svigrúm verður til að mæta óvæntum áföllum sem án efa munu verða því Ísland er háskattaland með ríkisútgjöld í hæstu hæðum.“
Hagnaður má ekki bara fara í arð og laun æðstu stjórnenda
Í ávarpi formanns fjallar Björgólfur töluvert um markmið aðila vinnumarkaðarins um bætt vinnubrögð við gerð kjarasamninga. Hann segir að mikill ávinningur sé í því fólginn fyrir samfélagið allt að betri vinnubrögð við gerð kjarasamninga nái fram að ganga. „Í skýrslu, sem aðilar rammasamkomulagsins fengu Steinar Holden, prófessor í Osló til að semja, komu fram brýn almenn varnaðarorð. Íslendingar hafi ekki dregið lærdóm af dýrkeyptri og síendurtekinni reynslu af ýktum hagsveiflum þar sem á skiptast ofþensluskeið og langvarandi kreppur. Launahækkanir sem ekki samrýmast verðbólgumarkmiði Seðlabankans og meðfylgjandi of hröð kaupmáttaraukning geti leitt til harkalegrar niðursveiflu. Að mati Steinars verða kjarasamningar að byggja á sameiginlegum skilningi aðila á nauðsyn þess að launaþróunin sé sjálfbær og að „hóflegar launahækkanir eru almannagæði sem koma öllum vel“. Sátt þurfi að ríkja um að niðurstaðan sé sanngjörn og að ekki ríki tilfinning um að ákveðnir hópar fái óeðlilega stóran skerf í sinn hlut. Aukinn hagnaður fyrirtækja þurfi að skila sér í aukinni fjárfestingu en ekki einungis í hærri arðgreiðslum og launum æðstu stjórnenda.“
Gagnrýnir kjararráð
Björgólfur segir að í nýliðnum febrúar hafi kjarasamningar í opinbera geiranum enn of aftur brotið samninga á almennum vinnumarkaði. Auk þess hafi úrskurðir kjararáðs um laun kjörinna fulltrúa, æðstu embættismanna og forstjóra ríkisfyrirtækja gengið þvert á launastefnuna sem aðilar, þeirra á meðal ríkið, mótuðu í SALEK-samkomulaginu í október 2015. „Auðvitað átti kjararáð að leggja launastefnu rammasamkomulagsins til grundvallar við ákvarðanir sínar.“
Björgólfi er svo tíðrætt um gengi krónunnar, sem hefur haldið áfram að styrkjast eftir að kjarasamningar voru undirritaðir. Það hafi meðal annars þau áhrif að kaupmáttur launa hafi aukist mun meira en ráð var fyrir gert. „Að sama skapi hefur þrengt að útflutningsfyrirtækjum sem fá færri krónur en áður fyrir framleiðslu sína og þjónustu. Einnig hefur Seðlabanki Íslands haldið vöxtum hér á landi háum og raunvextir eru mun hærri hér en í öllum helstu samkeppnislöndum. Enn eru höft á fjármagnsflutningum milli landa sem nauðsynlegt er að afnema sem fyrst. Lækkun vaxta og afnám hafta eru nauðsynlegar aðgerðir til að stöðva hækkun gengis krónunnar sem annars getur ekki endað nema með ósköpum.“
Þá fer hann yfir gagnrýni SA á fjármálaáætlanir ríkissjóðs, sem gera ráð fyrir því að auka útgjöld jafnt og þétt og „eyða jafnharðan öllum tekjum sem mikill hagvöxtur skilar hinu opinbera. Ekkert svigrúm verður til að mæta óvæntum áföllum sem án efa munu verða því Ísland er háskattaland með ríkisútgjöld í hæstu hæðum.“