Starfshópur stjórnvalda um erlendar fjárfestinga lífeyrissjóða segir í skýrslu sinni að mikilvægt sé fyrir íslenska lífeyrissjóðakerfið að reyna eftir fremst megni að draga úr gengisáhættu með því að byggja upp fyrirsjáanleg gjaldeyrisviðskipti og að þau verði tiltölulega jöfn. Í ljósi umfangs lífeyrissjóðakerfisins, miðað við hlutfall af landsframleiðslu, þá skipti þetta miklu máli.
Þetta er eitt af því sem fram kemur í skýslu starfshópsins sem birt var í dag. Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, skipaði hópinn 21. mars og hefur hann nú skilað af sér, tæpum fjórum vikum síðar.
Í starfshópnum sátu Gylfi Magnússon, dósent við Háskóla Íslands, formaður, Hersir Sigurgeirsson, dósent við Háskóla Íslands, Þórey S. Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða, Ólafur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Birtu lífeyrissjóðs og Fjóla Agnarsdóttir, hagfræðingur í fjármála- og efnahagsráðuneytinu.
Í skýrslunni segir að ekki sé talin þörf á því að breyta lögum til að stuðla að breytingum á eignasafni lífeyrissjóðakerfisins, þar sem núverandi lög feli í sér verulegar heimildir til erlendra fjárfestinga. Sagt er í skýrslunni að fyrirsjáanlegt sé að lífeyrissjóðir muni nýta sér þær á næstu árum og áratugum.
Í lok árs í fyrra áttu íslenskir lífeyrissjóðir eignir erlendis fyrir 764 milljarða króna en eignir á Íslandi námu 2.750 milljörðum. Heildareignir námu 3.514 milljörðum króna og voru skráð verðbréf 993 milljarðar króna. Á 20 árum hefur eignasamsetning lífeyrissjóðakerfisins breyst mikið að því leyti að mun stærri hluti þess er nú erlendis en var á árum áður. Samt hefur hlutfallið oft verið meira en það er nú, en ríflega 20 prósent af heildareignum lífeyrissjóðanna er í erlendum eignum.
Bent er á það í skýrslunni það sé lífeyrissjóðunum í hag að gjaldeyrisviðskipti þeirra valdi sem minnstum sveiflum á gengi krónunnar.