Rafrænt eftirlits- og innheimtukerfi, sem gerir rukkun bílastæðagjalda mögulega, hefur nú verið sett upp við Vatnajökulsþjóðgarð. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.
„Vatnajökulsþjóðgarður hefur hingað til ekki verið að rukka inn bílastæðagjöld, en við erum að horfa til þess að geta gert það núna,“ segir Þórður H. Ólafsson, framkvæmdastjóri Vatnajökulsþjóðgarðs, um fyrirhugaða gjaldtöku við bílastæði, í samtali við blaðið.
Það er hugbúnaðarfyrirtækið Computer vision ehf. sem hefur sett kerfið upp en í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segir Þórður að einungis sé verið að prófa vélarnar og hvernig þær reynist.
„Við erum ekki búin að ganga frá neinum samningum. Það er búið að koma vélunum sjálfum fyrir en það er ekkert farið að rukka neitt,“ segir Þórður.
Sérstaklega er horft til þess að byrja á bílastæðunum við Skaftafell, en þar er mesti fjöldinn, einkum á háannatíma. Reiknað er með því að um 800 þúsund manns muni fara um Skaftafell á þessu ári.
Töluverð umræða hefur átt sér stað að undanförnu um það hvernig megi aðgangsstýra þeim mikla fjölda ferðamanna sem hingað kemur, og þá einkum við fjölfarna staði. Reiknað er með því að um 2,3 milljónir ferðamanna sæki landið heim á þessu ári en í heild komu 1,8 milljónir manna til landsins í fyrra. Til samanburðar voru innan við 500 þúsund sem komu til landsins árið 2010, og hefur vöxturinn því verið mikill á skömmum tíma.