Herdís D. Fjeldsted, sem sagði sig úr stjórn VÍS fyrir skemmstu, segir í ítarlegu viðtali í ViðskiptaMogga í dag að ástæðu afsagnarinnar megi rekja til „ólíkrar sýnar hennar og núverandi stjórnarformanns félagsins á stjórnarhætti skráðra og eftirlitsskyldra fyrirtækja.“
Núverandi stjórnarformaður félagsins er Svanhildur Nanna Vigfúsdóttir, sem jafnframt er meðal stærstu hluthafa félagsins. Stærsti einstaki hluthafi félagsins er Lífeyrissjóður verzlunarmanna með 9,67 prósent hlut.
Herdís segir í viðtali við ViðskiptaMoggann að þessi ólíka sýn hafi leitt til skorts á trausti milli aðila. „Það kom í ljós að við höfum mjög ólíka sýn á vinnubrögð og stjórnarhætti. Þar vísa ég sérstaklega til þeirra valdmarka sem ég tel að séu til staðar á vettvangi stjórna skráðra og eftirlitsskyldra fyrirtækja,“ segir Herdís meðal annars í viðtalinu.
Tíðar breytingar á stjórn og stjórnendum hafa verið áberandi hjá VÍS undanfarin misseri. Í gær var tilkynnt um það að Jakob Sigurðsson hefði hætt sem forstjóri félagsins, en hann hefur verið ráðinn forstjóri breska félagsins Victres plc. Hann tók við forstjórastarfinu af Sigrúnu Rögnu Ólafsdóttur, fyrir nokkrum mánuðum síðan.
Markaðsvirði VÍS er nú 23,1 milljarður króna en félagið hefur meðal annars verið að kaupa eignarhluti í bankanum Kviku, en Svanhildur Nanna er þar stór hluthafi einnig ásamt eiginmanni sínum.