Gísli Freyr Valdórsson er tekin við ritstjórn Þjóðmála, tímarits um stjórnmál og menningu sem kemur út ársfjórðungslega. Hann greinir frá því í stöðuuppfærslu á Facebook að fyrsta tölublaðið undir hans ritstjórn sé komið út og verði á næstunni dreift til áskrifenda. „Það er alltaf pláss fyrir smá pólitík í lífinu,“ segir Gísli Freyr í færslunni.
Þjóðmálum var síðast stýrt af Óla Birni Kárasyni. Óli Björn var hins vegar kosin á þing í kosningunum í október 2016 fyrir Sjálfstæðisflokkinn og lét í kjölfarið af störfum. Hann tók við starfinu í október 2015 af Jakobi F. Ásgeirssyni, sem hafði þá setið í ritstjórastólnum í áratug. Í Þjóðmálum er fjallað um stjórnmál og flestir greinahöfundar eða reglulegir skríbentar eru með sterk tengsl við Sjálfstæðisflokkinn. Í skrifum blaðsins má greina þá strauma sem eru hverju sinni á hægrivæng og í íhaldskreðsum stjórnmálanna.
Gísli Freyr var lengi vel áberandi í íslenskum stjórnmálum auk þess sem hann starfaði lengi sem blaðamaður á Viðskiptablaðinu. Hann gengdi starfi aðstoðarmanns Hönnu Birnu Kristjánsdóttur eftir að hún tók við starfi innanríkisráðherra eftir kosningarnar 2013. Hann lék stórt hlutverk í lekamálinu svokallaða. Í ágúst 2014 var hann ákærður fyrir að leka trúnaðarupplýsingum um hælisleitanda úr innanríkisráðuneytinu til fjölmiðla í nóvember 2013. Hann var í kjölfarið leystur frá störfum á meðan að málið væri til meðferðar fyrir dómstólum. Gísli Freyr neitaði staðfastlega sök á þeim tíma.
Degi áður en málið var tekið fyrir í héraðsdómi – 13. nóvember 2014 – játaði Gísli Freyr brot sitt fyrir Hönnu Birnu og hlaut síðan átta mánaða skilorðsbundinn dóm fyrir brot sitt þann 14. nóvember sama ár. Hann undi dómnum og áfrýjaði honum ekki til Hæstaréttar. Málið leiddi á endanum til þess að Hanna Birna sagði af sér sem innanríkisráðherra rúmri viku síðar.