Hildur Sverrisdóttir, þingkona Sjálfstæðisflokksins, segir að of bratt sé að segja til um það á þessum tímapunkti hvort ríkisfjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fari í gegnum þingið. Mikil andstaða er innan hennar flokks við fyrirhugaða hækkun á virðisaukaskatti á ferðaþjónustufyrirtæki, sem verða samkvæmt áætluninni færð úr 11 í 24 prósent skattþrep um mitt næsta ár. Meðal annars hafa fjórir af sex nefndarformönnum Sjálfstæðisflokksins lýst yfir að þeir muni ekki styðja áætlunina að óbreyttu.
Hildur var ein fjögurra þingkvenna sem ræddi fjármálaáætlunina á vettvangi dagsins í Silfrinu í dag, sem stýrt var af Fanneyju Birnu Jónsdóttur. Hún sagði að það ættu ekki að vera neinar fréttir að Sjálfstæðisflokkurinn vilji almennt sjá lægri skatta. En erfitt væri að færa rök fyrir því að ferðaþjónustan sé með undanþágu og ívilnanir frá greiðslu skatta í ljósi stöðu hennar og vaxtar á undanförnum árum. Það þurfi að horfa heildstætt á málið og í samhengi við t.d. innviðauppbyggingu, en innviðir landsins hafa látið verulega á sjá á undanförnum árum m.a. vegna fjölgunar ferðamanna. Uppsöfnuð fjárfestingaþörf í innviðum hleypur á tugum milljarða króna hið minnsta.
Jóna Sólveig Elínardóttir, varaformaður Viðreisnar. var einnig á meðal gesta þáttarins. Hún segir að það sé ástæða til að skoða hvort að lækkunin á efra virðisaukaskattsþrepinu – þar sem það verður lækkað úr 24 í 22,5 prósent á árinu 2019 – verði endurskoðuð í ljósi þess að fjármálaráð gagnrýndi þá ákvörðun og sagði hann þensluvaldandi. Full ástæða sé til að taka tillit til tillagna þess og athugasemda en það verði fyrst gert við vinnslu næstu áætlunar, ekki þeirrar sem þegar hefur verið lögð fram.