Frosti Sigurjónsson, fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins, Sigurður Kári Kristjánsson, fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins og Þór Saari, fyrrverandi þingmaður Borgarahreyfingarinnar og Hreyfingarinnar, eru meðal þeirra sem koma nýir inn í bankaráð Seðlabanka Íslands. Kosið var í bankaráðið á Alþingi í dag.
Í nýju bankaráði munu sitja Þórunn Guðmundsdóttir, Sigurður Kári Kristjánsson, Sveinn Agnarsson, Auður Hermannsdóttir, Björn Valur Gíslason, Þór Saari og Frosti Sigurjónsson.
Það eru því fjórir fyrrverandi þingmenn jafnmargra flokka sem sitja nú í bankaráði Seðlabanka Íslands. Þórunn, sem hefur verið formaður bankaráðs frá árinu 2015, er lögmaður og einn eigenda lögmannsstofunnar LEX. Sveinn Agnarsson er dósent við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands og Auður Hermannsdóttir er aðjúnkt við sömu deild.
Þórunn, Auður og Björn Valur voru þegar í bankaráðinu, en úr því fara nú Jón Helgi Egilsson, Ingibjörg Ingvadóttir, Ragnar Árnason og Ágúst Ólafur Ágústsson.