Ólafía B. Rafnsdóttir hefur verið ráðin aðstoðarmaður Benedikts Jóhannessonar fjármála- og efnahagsráðherra. Hún er annar aðstoðarmaður Benedikts, en fyrir er Gylfi Ólafsson aðstoðarmaður hans.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá ráðuneytinu. Ólafía var formaður VR 2013-2017, en tapaði í formannskosningu fyrr á þessu ári fyrir Ragnari Þór Ingólfssyni. Frá 2014-2017 var hún varaformaður Landssambands íslenskra verslunarmanna og jafnframt fyrsti varaforseti Alþýðusambands Íslands. Áður starfaði Ólafía m.a. sem framkvæmdastjóri hjá mannauðssviði 365 miðla, deildarstjóri innheimtudeildar Tals, þjónustustjóri Islandia Internet og hjá VR.
Ólafía hefur mikla reynslu af nefndar- og félagsstörfum. Hún hefur gegnt stjórnarformennsku hjá Rannsóknarsetri verslunarinnar, setið í miðstjórn ASÍ og verið formaður í vinnumarkaðsnefnd og Jafnréttis- og fjölskyldunefnd. Þá hefur Ólafía starfað sem kosningastjóri. m.a. fyrir forsetaframboð Ólafs Ragnars Grímssonar árið 1996 og 2012.
Ólafía lauk MBA-gráðu frá Háskóla Íslands árið 2012, námi í mannauðsstjórnun við Endurmenntun Háskóla Íslands árið 2005 og verkefnastjórnun og leiðtogaþjálfun við sömu stofnun árið 2004.