Bráðabirgðaákvæði í stjórnarskránni, sem kveður á um að auðveldara sé að breyta stjórnarskránni en venjulega, rennur út á sunnudaginn, 30. apríl 2017. Ákvæðið var samþykkt sem málamiðlun í stjórnarskrárbreytingum á Alþingi í júlí árið 2013. Með bráðabirgðaákvæðinu gafst tæplega fjögurra ára frestur til þess að breyta stjórnarskránni án þess að þurfa að rjúfa þing og boða til nýrra kosninga.
Bráðabirgðaákvæðið var sett fram sem málamiðlun og til þess að ná sem víðtækastri sátt á Alþingi um framhald og lyktir endurskoðunarinnar á stjórnarskránni, sem stóð á árunum eftir hrun og varð að nýrri stjórnarskrá stjórnlagaráðs. Haldin var þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs, þar sem tillögurnar voru samþykktar.
Þegar ljóst var undir lok kjörtímabilsins 2009 til 2013 að ekki myndi takast að koma stjórnarskrárbreytingum í gegn fyrir kosningar var tillagan um bráðabirgðaákvæðið flutt. Í henni kom fram að „samþykki Alþingi frumvarp til laga um breytingu á stjórnarskrá með minnst 3/5 hlutum greiddra atkvæða skal það borið undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar.“ Ef frumvarpið væri samþykkt með 3/5 hlutum greiddra atkvæða í þjóðaratkvæðagreiðslunni ætti forsetinn að staðfesta frumvarpið innan tveggja vikna og þar með yrði það orðið að gildum stjórnarskipunarlögum.
Þannig var komist hjá því að rjúfa þyrfti þing til að breyta stjórnarskránni, en í staðinn var kveðið á um aukinn meirihluta bæði á þingi og meðal þjóðarinnar. Samhliða þessu var flutt þingsályktunartillaga um að Alþingi fæli fimm manna nefnd að vinna áfram að heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar.
Þessi tillaga var lögð fram í tvígang og var samþykkt eftir að ný ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks hafði tekið við völdum eftir kosningarnar 2013. Síðan þá hefur verið unnið að stjórnarskrárbreytingum í stjórnarskrárnefnd, og Sigurður Ingi Jóhannsson lagði fram breytingartillögur að stjórnarskránni í fyrra, þegar hann var forsætisráðherra. Ekkert hefur hins vegar orðið af breytingunum, og nú mun fresturinn til að gera breytingar með þessum hætti renna út á sunnudag án þess að svo verði.
Jóhanna Sigurðardóttir, sem var forsætisráðherra þegar stjórnlagaráð starfaði, gerir þetta mál að umtalsefni á Facebook-síðu sinni. Hún segir þar að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, eftirmaður hennar í forsætisráðherraembættinu, og Bjarni Benediktsson, núverandi forsætisráðherra, hafi borið mesta ábyrgð á því að ný stjórnarskrá náði ekki fram að ganga. Þess í stað hafi málamiðlunin orðið til og nú falli hún úr gildi án þess að nokkuð af viti hafi verið gert í stjórnarskrármálinu.
„Í hvaða lýðræðisríki hefði stjórnvöldum liðist að gefa þjóðinni bara langt nef eftir að mikill meirihluti þátttakenda í þjóðaratkvæðagriðslu hefði krafið stjórnvöld um nýja stjórnarskrá? Stjórnarskrá sem þjóðin hefur kallað eftir í rúm 70 ár.“