Gengi bréfa í Högum hækkaði um tæplega 6 prósent í dag í viðskiptum upp á 846 milljónir króna. Greinilegt er að tíðindunum frá því í gær, þar sem tilkynnt var um kaup Haga á Olíuverzlun Íslands (Olís), var vel tekið en heildarkaupverð var ríflega níu milljarðar króna. Félagið var metið á rúmlega 15 milljarða en að frádregnum vaxtaberandi skuldum er verðmiðinn ríflega níu milljarðar. Eignarhlutur Olís í fasteignafélaginu DGV fylgdi einnig með í kaupunum og var hann metinn á 400 milljónir.
Greitt er fyrir hlutinn með reiðufé og hlutabréfum í Högum, þar sem viðmiðunargengið í viðskiptunum var 47,5. Við lok dags í dag var gengi bréfa félagsins tæplega 52.
Eigendur Olís voru Samherji og Kaupfélag Skagfiðinga.
Endanlegt verð mun þó ráðast því hvernig framlegðin verður af rekstrinum á þessu ári, samkvæmt tilkynningu Haga til kauphallar þar sem fjallað var um viðskiptin.
Fyrir tilkynningu um viðskiptin var markaðsvirði Haga ríflega 56 milljarðar króna, en við lokun markaða í dag var það 59,8 milljarðar.
Olís sérhæfir sig í sölu og þjónustu með eldsneyti og aðrar olíuvörur, auk ýmissa nauðsynjavara til einstaklinga og fyrirtækja. Dreifinet félagsins er víðtækt og starfrækir það um 115 starfsstöðvar á um 50 stöðum á landinu, aðallega undir merkjum Olís, ÓB og Rekstrarlands. Heildarvelta Olíuverzlunar Íslands var um 31 milljarður árið 2016.
Um miðjan nóvember í fyrra tilkynnti Hagar síðan um kaup á Lyfju. Fyrirtækið samanstendur af móðurfélaginu Lyfju hf. ásamt dótturfélögunum Heilsu ehf. og Mengi ehf. Lyfja hf. rekur samtals 39 apótek, útibú og verslanir, auk lyfjaskömmtunar, um land allt undir merkjum Lyfju, Apóteksins og Heilsuhússins. Heildarvelta Lyfju hf. var 9 milljarðar kr. á árinu 2015 en verðmatið á félaginu var 6,7 milljarðar í viðskiptunum.
Hagar er orðið mikið smásöluveldi með þessum kaupum, en fyrir rekur það meðal annars verslanir undir merkjum Bónus og Hagkaup.
Í tilkynningu Haga til kauphallar í gær kemur fram að fyrirvara um áreiðanleikakönnun hafi verið aflétt og verðmiðinn lækkaður um 50 milljónir, auk þess sem það komi til skoðunar að selja félagið Heilsu ehf.