Þingmenn Sjálfstæðisflokksins í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis, Brynjar Níelsson og Njáll Trausti Friðbertsson, telja að funda eigi með Ólafi Ólafssyni um um þátttöku Hauck & Aufhäuser í kaupunum á Búnaðarbankanum á lokuðum fundi. Þetta kom fram í Fréttablaðinu í dag.
Ólafur Ólafsson sendi frá sér fréttatilkynningu fyrr í mánuðinum þar sem hann sagðist vilja fá að koma fyrir nefndina og tjá sig vegna kaupa S-hópsins á hlut ríkisins í Búnaðarbankanum. Þetta vildi hann gera í kjölfar skýrslu sem rannsóknarnefnd Alþingis gaf út um kaupin þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að hann hefði vísvitandi blekkt stjórnvöld, almenning og fjölmiðla. Hauck & Aufhäuser hafi aldrei verið fjárfestir í bankanum í raun. Ólafur hafði ekki viljað ræða við nefndina um málið og tjáði sig ekki í fjölmiðlum eftir að skýrslan kom út.
Líkt og Kjarninn hefur greint frá hefur Ólafur þó ekki sent formlega beiðni til nefndarinnar og því hefur nefndin ekki tekið afstöðu til þess hvort hann fái að mæta, hvort fundurinn verði opinn blaða- og fréttamönnum né hvort að streymt verði frá honum á vef Alþingis svo að almenningur geti fylgst með. Þetta sagði Jón Steindór Valdimarsson, þingmaður Viðreisnar og varaformaður nefndarinnar, við Kjarnann þann 18. apríl. Jón Steindór verður formaður nefndarinnar í vinnu tengdri þessu máli, eftir að Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður nefndarinnar, samþykkti að víkja úr nefndinni í málinu vegna tengsla. Ástæðan er sú að Brynjar var um tíma verjandi Bjarka Diego í sakamáli sem snerist um meint efnahagsbrot. Bjarki er einn þeirra sem gegndi lykilhlutverki í þeirri fléttu sem ofin var í kringum kaupin.
Brynjar mun því ekki koma að málinu í nefndinni, en tjáir sig um sína skoðun í Fréttablaðinu í dag. Hann segir að hans skoðun sé að fundurinn eigi ekki að vera opinn fjölmiðlum og almenningi. „Ég er ekki viss um að hann eigi að vera í beinni útsendingu ef hann á að nýtast okkur eitthvað. Þá er þetta allt komið á þvæling á meðan við erum á viðkvæmum stað í skoðuninni. Þá er hætt við að þessi umræða fari út og suður áður en við ljúkum okkar vinnu. Það getur verið óþægilegt fyrir okkur en það er mitt mat. Við munum svo ræða það nánar í nefndinni,“ segir Brynjar við Fréttablaðið.
Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, tekur undir með Brynjari, og telur óskynsamlegt að hafa fundinn í beinni útsendingu.
Brynjar segir að hann hafi rætt við Ólaf á miðvikudaginn og ítrekað ósk stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar um að fá greinargerð frá honum þar sem hann rökstyður beiðni sína um fund og hvaða nýju upplýsingar hann ætli að leggja fram fyrir nefndinni. Engin formleg beiðni um fund hefur þó enn borist frá honum.