Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra, segist leyfa sér að efast um þann málflutning ferðaþjónustunnar að breytingar á virðisaukaskatti í greininni muni setja hana á hliðina. Þetta kemur fram á Facebook-síðu ráðherrans.
Máli sínu til stuðnings birtist Þorsteinn mynd sem sýnir verðþróun á gistinu frá árinu 2010. „Í stuttu máli hefur verðið liðlega tvöfaldast á sama tíma og almennt verðlag hefur hækkað um 23%. Á sama tíma hefur nýtingarhlutfall gistirýma aukist jafnt og þétt.“ Þegar tekin séu saman áhrif verðhækkunar og betri nýtingar megi ætla að tekjur dæmigerðs hótels hafi þrefaldast frá árinu 2010 til 2016. „Hamfaraspár um áhrif þessara skattbreytinga á rekstur og afkomu greinarinnar virka því ekki mjög trúverðugar í þessu samhengi og eru engan veginn í takt við þær greiningar sem unnar hafa verið.“
Þorsteinn segir að hörð mótmæli ferðaþjónustunnar við áformum stjórnvalda komi ekki á óvart, enda sé sjaldgæft að atvinnugreinar fagni skattahækkunum. Tilgangurinn er tvíþættur, segir hann. „Í fyrsta lagi að hemja þann stjórnlausa vöxt sem verið hefur í ferðaþjónustu á undanförnum misserum, Í öðru lagi að lækka almenna þrep virðisaukaskattsins sem þýðir að allur almenningur mun borga aðeins lægri virðisauka en ferðamenn aðeins hærri. Þannig nýtur þá almenningur þess uppgangs sem verið hefur í þessari mikilvægu atvinnugrein.“
Það sé ekki eftirsóknarvert að vöxtur ferðaþjónustunnar sé taumlaus, og horfa verði til samfélagslegra þolmarka ekki síður en þeirra jákvæðu efnahagslegu áhrifa sem vöxtur ferðaþjónustu hafi vissulega haft.
Mikilvægt sé að ná tökum á þessari þróun og draga þannig úr ruðningsáhrifum sem greinin er farin að valda, meðal annars á vinnumarkaði og gagnvart öðrum útflutningsgreinum vegna styrkingar krónunnar, en ekki síður á húsnæðismarkaði.
„Samhliða þessu verður almennt þrep virðisaukaskatts lækkað og verður þar með það lægsta á Norðurlöndunum. Í stuttu máli þýðir þetta að ferðamenn borga aðeins meira en allur almenningur aðeins minna í virðisaukaskatt. Það ætti að vera gleðiefni fyrir okkur öll.“