Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður Framsóknarflokksins og fyrrverandi formaður hans, segist ekki vera á leið í borgarmálin þótt áhrifamenn innan flokksins hafi hvatt hann til þess að leiða lista flokksins í næstu sveitarstjórnarkosningum.
„Nei ég er ekki að fara í borgina. Ég er auðvitað í Norðausturkjördæmi og það er margt ógert þar, en líka á landsvísu, og miklar breytingar framundan. Mjög miklar breytingar framundan í íslenskri pólitík almennt og mjög stór tækifæri sem er gríðarlega mikilvægt að menn nýti og geri það rétt,“ sagði Sigmundur Davíð í viðtali í Bítinu á Bylgjunni í morgun.
Hann sagði að það væri ekki skrítið að menn væru farnir að velta fyrir sér borgarmálunum, því þar sé sannarlega af ýmsu að taka og ekki veiti af því að gera heilmiklar breytingar. „Það blasir auðvitað við fólki að skipulag allra hluta, hvort sem það eru skipulagsmálin eða hvernig borgin er rekin í samgöngumálum, í viðhaldi gatna og annarra mannvirkja, sorphirða, það er svona allt sem að almenningur líti á sem helstu hlutverk borgaryfirvalda, hefur verið í hálfgerðum ólestri,“ sagði Sigmundur Davíð.
Stjórnarandstaðan í borginni hafi verið mild við meirihlutann, nema Framsókn og flugvallarvinir. Sigmundur segist ekki heyra annað en að mjög mikill vilji sé til að sjá verulegar breytingar í borginni á næsta kjörtímabili.
Það sé rétt að ýmsir sem láti sig borgarmálin miklu varða, ekki síst innan Framsóknarflokksins, hafi viðrað hugmyndir um að hann fari í borgarmálin. „Auðvitað þykir manni vænt um það að þeir sem vilja fá mann í borgarmálin tali um það við mann.En svo eru kannski hinir líka sem vilja losna við mann úr landsmálunum og manni þykir ekki alveg jafn vænt um það. Aðalatriðið er nú þetta að það eru líka gríðarlega stór mál fram undan í landsmálunum sem ég hef mikinn áhuga á að taka þátt í og miklar skoðanir á hvernig þurfi að gera svoleiðis að ég ætla að halda mig við þann vettvang.“
Hann var einnig spurður að því hvort ekki væri gróið um heilt innan Framsóknarflokksins eftir mikil átök þar síðustu misseri. „Nei, nei. Ég væri ekki heiðarlegur ef ég reyndi að halda því fram,“ sagði Sigmundur Davíð. Hann ætlaði sér hins vegar að ræða stöðuna innan flokksins á þeim vettvangi fyrst.