Yfir helmingur af útflutningstekjum Íslendinga árið 2016 var í Bandaríkjadölum. Af heildarútflutningstekjum Íslands var Bandaríkjadalur með 57,5% hlutdeild, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag, þar sem fjallað er um skýrslu Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra um utanríki- og alþjóðamál.
Evrópulöndin voru samt sem áður langstærstu viðskiptalönd Íslands á árinu en 82,4% af öllum vöruútflutningi Íslendinga fóru til landa í Evrópu. Þar af fóru 72,3% útfluttra vara til landa innan ESB. Þetta kemur fram í skýrslu utanríkisráðherra um utanríkis- og alþjóðamál, sem um er fjallað ítarlega í Morgunblaðinu í dag.
Heildarverðmæti útfluttrar vöru og þjónustu á árinu var 1.186 milljarðar króna og nam verðmæti innfluttrar vöru og þjónustu tæpum 1.035 milljörðum króna. Viðskiptajöfnuður Íslands var því hagstæður um 151,7 milljarða á árinu. Af útfluttum vörum til ESB fara 11,3% þeirra til Bretlands, en það hefur lengi verið eitt allra stærsta og mikilvægasta viðskiptasvæði íslensks sjávarútvegs.
Samkvæmt skýrslunni hefur utanríkisráðuneytið væntingar til þess að hægt sé að semja um enn betri markaðsaðgang fyrir íslenskan útflutning að loknu útgönguferli Breta úr ESB, að því er fram kemur í Morgunblaðinu.