Framtakssjóður Íslands samþykkti á föstudaginn að greiða út 10,2 milljarða í arð úr sjóðnum. Ákvörðunin var tekin á aðalfundi þegar ársreikningur félagsins var kynntur og samþykktur.
Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.
Hagnaður sjóðsins var 7 milljarðar á árinu en hluti af arðinum sem verður greiddur út eru aðrar uppsafnaðar eignir félagsins, en frá stofnun hans, árið 2009, hefur ávöxtun fjárfestinga verður góð.
Sjóðurinn var formlega stofnaður 2009 af sextán lífeyrissjóðum innan vébanda Landssambands lífeyrissjóða. Tilgangur með stofnuninni var að taka þátt í og móta fjárhagslega og rekstrarlega endurreisn íslensks atvinnulífs eftir hrun fjármálakerfisins. Sjóðurinn hefur meðal annars komið að endurreisn hlutabréfamarkaðins þar sem hann hefur verið stór kaupandi og seljandi eignarhluta í félögum.
Að sögn Þorkels Sigurlaugssonar, stjórnarformanns Framtakssjóðsins, er búið að greiða út 69,1 milljarð í arð frá stofnun hans. „Þetta er í raun í eigu almennings og þessi ávinningur hefur skilað sér vel til hans,“ segir Þorkell í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.