Microsoft hefur spáð fyrir um niðurstöðu í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva, Eurovison. Spáin byggir á rauntímaupplýsingum af vefnum, samfélagsmiðlum og leitarvélum sem eru síðan pöruð við söguleg gögn til að fá hvað áreiðanlegustu niðurstöðurnar.
Þessi aðferð leiðir það fram, að Ítalía standi uppi sem sigurvegari að þessu sinni.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Microsoft á Íslandi.
„Fyrirtæki geta nýtt sér sömu reikniaðferðir til að ná samkeppnisforskoti og auka skilvirkni. Samkvæmt spám reikniaðferðinnar er ansi mjótt er á munum á tveimur líklegustu sigurvegurunum en eins og staðan er í dag eru líkurnar á að Ítalía beri sigur úr býtum í ár 18% en sænski flytjandinn fylgir fast á eftir með 16,8%,“ segir í tilkynningunni.
Litlar líkur eru á að Svala Björgvinsdóttir hreppi vinninginn þetta árið þar sem laginu er spáð 0,3% vinningslíkum, í 30. til 33. sæti, ásamt Hvíta-Rússlandi, Póllandi og San Marínó.
Neðst með 0,1% vinningslíkur eru Tékkland, Georgía, Ungverjaland, Írland og Slóvakía. Spáin verður uppfærð að lokinni undankeppninni sem fer fram á morgun, þriðjudag, og á fimmtudaginn.
Niðurstöðurnar munu verða uppfærðar eftir að undankeppnunum á þriðjudaginn og fimmtudaginn lýkur og er hægt að nálgast þær á vefnum.
Til að sýna fram á notkunarmöguleika nýrrar reikniaðferðar (e. algorithm) Microsoft, notar tæknirisinn söngvakeppnina sem dæmi og spáir til um úrslit og sigurvegara keppninnar með hjálp rauntímaupplýsinga. „Reikniaðferðir Microsoft gegna mikilvægu hlutverki í þeim stafrænu breytingum nú standa yfir þvert á atvinnuvegi og heimsálfur. Fyrirtæki af öllum stærðum og gerðum geta notað sömu aðferðir og notaðar voru til að spá fyrir um niðurstöður Eurovision. Til dæmis við að ákveða hvenær best sé að markaðsetja nýja vöru eða að takast á við hin ýmsu vandamál áður en þau verða að veruleika,“ segir Heimir Fannar Gunnlaugsson, framkvæmdastjóri Microsoft á Íslandi. „Getan til að nýta stafræn gögn gerir fyrirtækjum kleift að vinna hefðbundin verk hraðar og á skilvirkari hátt og geta þær forspáraðferðir sem Microsoft býður upp á verið mikilvægar til að sjá tækifærin á undan samkeppnisaðilum,“ bætir hann við.