Kröfur vegna endurálagningar á grundvelli Panamagagnanna eru nú orðnar umtalsvert hærri en kostnaðurinn við kaupin á gögnunum.
Þetta kemur fram í svari Benedikts Jóhannssonar fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn á Alþingi sem birt var í gær. Eins og fram hefur komið, keypt Skattrannsóknarstjóri gögn um eignir Íslendinga í skattaskjólum fyrir 37 milljónir króna.
Skattrannsóknarstjóri hefur hins vegar nú þegar krafið fjóra einstakling um 82 milljónir eða næstum þrefalda þá upphæði sem kostaði að kaupa gögnin.
Alls koma 349 Íslendingar og 61 aflandsfélög með íslenska kennitölu fyrir í gögnum skattrannsóknarstjóra. Samtals hafa 34 mál verið tekin til formlegrar rannsóknar hjá skattrannsóknarstjóra. Af þeim málum er tekin hafa verið til rannsóknar er rannsókn lokið í þremur málum. Tveimur af þeim hefur verið vísað til héraðssaksóknara en ákvörðun hefur verið tekin um að gera kröfu um sekt hjá yfirskattanefnd í þriðja málinu. Rannsóknir í sjö málum eru á lokastigi.
Fyrirspurnin til efnahags- og fjármálaráðherra, sem kom frá Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur, fer hér á eftir ásamt svörum ráðherra:
1. Hve margir aðilar með íslenska kennitölu koma fyrir í gögnum sem skattrannsóknarstjóri keypti sumarið 2015 og gjarnan eru kennd við Panama?
Samkvæmt upplýsingum frá skattrannsóknarstjóra er fjöldi einstaklinga með íslenska kennitölu, sem fyrir koma í þeim gögnum sem skattrannsóknarstjóri keypti sumarið 2015, samtals 349. Fjöldi aflandsfélaga með íslenska kennitölu, sem fyrir koma í keyptu gögnunum, er 61.
2. Hversu mörg mál hafa verið tekin til formlegrar rannsóknar á grundvelli upplýsinga úr gögnunum og hve mörg þeirra hafa leitt til endurálagningar eða ákæru?
Alls hafa 34 mál verið tekin til formlegrar rannsóknar hjá skattrannsóknarstjóra vegna gruns um skattalagabrot sem tengjast hinum svonefndu Panamagögnum. Af þeim voru 27 tekin til rannsóknar eftir að skattrannsóknarstjóri festi kaup á umræddum gögnum. Eitt mál hefur verið tekið til rannsóknar í kjölfar fjölmiðlaumfjöllunar í tengslum við Panamalekann. Við rannsóknir skattrannsóknarstjóra á þessum málum hefur vaknað grunur um skattalagabrot í sex öðrum málum. Af þeim málum er tekin hafa verið til rannsóknar er rannsókn lokið í þremur málum. Tveimur af þeim hefur verið vísað til héraðssaksóknara en ákvörðun hefur verið tekin um að gera kröfu um sekt hjá yfirskattanefnd í þriðja málinu. Rannsóknir í sjö málum eru á lokastigi. Rannsókn átta mála hefur verið felld niður, m.a. vegna þess að grunur hefur ekki reynst á rökum reistur eða ekki hefur reynst unnt að upplýsa mál með fullnægjandi hætti. Endurálagning hefur enn ekki átt sér stað í þeim málum sem rannsókn er lokið í og ekki hefur verið gefin út ákæra í þeim málum sem send hafa verið héraðssaksóknara.
Þau mál, sem var að finna í keyptu gögnunum og ekki voru tekin til formlegrar rannsóknar hjá skattrannsóknarstjóra (SRS), voru framsend til ríkisskattstjóra í október 2015 með vísan til þess að greining SRS á umræddum gögnum benti til þess að skattskil aðila gætu verið athugunarverð, án þess þó að sýnt þætti að um refsiverð undanskot væri að ræða. Samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattstjóra hafa þegar verið send út bréf til 229 einstaklinga í tengslum við hin keyptu gögn. Til viðbótar þeim sem hafa fengið bréf hafa fleiri íslenskir aðilar sem fram komu í keyptu gögnunum hlotið skoðun hjá embættinu án þess að formlegar bréfaskriftir hafi nú þegar átt sér stað.
3. Hversu háum fjárhæðum nemur endurálagning opinberra gjalda á grundvelli gagnanna, annars vegar í heild og hins vegar eftir tegundum opinberra gjalda?
Eins og fram kemur í svari við 1. lið fyrirspurnarinnar þá er rannsókn lokið í þremur málum hjá skattrannsóknarstjóra, en endurálagning í þeim málum hefur ekki átt sér stað. Önnur mál, sem eru til meðferðar hjá skattrannsóknarstjóra, eru enn í rannsókn.
Samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattstjóra nemur endurálagning opinberra gjalda á grundvelli keyptu gagnanna 81.951.171. kr. Að baki þeirri fjárhæð eru fjórir einstaklingar. Þar af nam auðlegðarskattur 80.997.139 kr. og tekjuskattur 954.032 kr.
4. Hversu háum fjárhæðum nema sektir og önnur viðurlög í umræddum málum?
Eins og áður er komið fram hefur tveimur málum skattrannsóknarstjóra verið vísað til héraðssaksóknara til refsimeðferðar, jafnframt því að tekin hefur verið ákvörðun um að gera kröfu um sekt hjá yfirskattanefnd í þriðja málinu. Ákvörðun um refsimeðferð í málum sem enn eru til rannsóknar verður tekin í framhaldi rannsóknarloka.
Ríkisskattstjóri hefur ekki heimildir til að beita sektum en hefur þó lagaheimildir til að beita 25% álagi skv. 108. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Var þeirri heimild beitt í nefndum málum, sbr. svar við 3. lið fyrirspurnarinnar.
5. Hve margir einstaklingar annars vegar og lögaðilar hins vegar hafa sætt endurálagningu á grundvelli gagnanna og hvernig skiptast fjárhæðir endurálagningar og sekta og annarra viðurlaga milli einstaklinga, félaga í rekstri, eignarhaldsfélaga og annarra félagsforma?
Til svars við þessum lið fyrirspurnarinnar er vísað til svars við 2.–4. lið.
6. Í hve mörgum tilfellum og fyrir hve stórum hluta krafna vegna endurálagningar hefur ríkissjóður trygg veð?
Skattrannsóknarstjóri hefur farið fram á kyrrsetningu eigna vegna rannsókna í þremur af þeim málum sem hafa verið til rannsóknar. Tollstjóri annast slíka kyrrsetningu að beiðni skattrannsóknarstjóra. Endurálagning ríkisskattstjóra fer án frekari íhlutunar inn í innheimtukerfi ríkisins þar sem nauðsynlegum innheimtuaðferðum er beitt sé umrædd endurálagning ekki greidd.
7. Hve mörgum málum sem urðu til vegna upplýsinga úr Panamaskjölunum er enn ólokið og hversu háum fjárhæðum má gera ráð fyrir að endurálagning geti numið?
Af þeim málum sem skattrannsóknarstjóri tók til meðferðar eru eins og fram hefur komið rannsóknir í sjö málum á lokastigi og rannsóknir í 16 málum eru enn í gangi, eða samtals í 23 málum. Samkvæmt upplýsingum frá skattrannsóknarstjóra er útilokað að segja með nákvæmni hversu háar fjárhæðir er um að ræða í óloknum málum, en í einstökum málum sem eru til meðferðar nema undandregnir skattstofnar allt að nokkrum hundruðum milljóna króna. Þá er fyrirséð að fleiri mál verði tekin til rannsóknar á næstu mánuðum, þar sem grunur liggur nú fyrir um skattalagabrot, en rannsókn er ekki formlega hafin.
Samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattstjóra er í gangi úrvinnsla á fjölmörgum málum. Á grundvelli mála sem langt eru komin þá má áætla að fjárhæðir gjalda vegna þessa málaflokks geti þrefaldast á næstu mánuðum frá því sem áður var nefnt. Þá er rétt að taka fram að eftir að vinna við þennan málaflokk hófst hafa borist sex skatterindi þar sem einstaklingar, ýmist persónulega eða vegna félaga á þeirra vegum, hafa óskað eftir endurupptöku á áður innsendum skattframtölum. Um er að ræða fjármuni og/eða fjármagnstekjur erlendis sem áður hafði ekki verið gerð grein fyrir á framtölum. Hækkun á auðlegðarskatti vegna þessa hefur nú þegar numið 36.400.647 kr., tekjuskatti alls 25.780.957 kr. og fjármagnstekjuskatti 6.179.803 kr. Jafnframt eru óafgreidd sjö skatterindi af sama meiði sem leiða til viðbótarskattlagningar.