Kortavelta Íslendinga hefur aldrei mælst eins há og í apríl síðastliðnum ef leiðrétt er fyrir þróun á gengi krónunnar á tímabilinu. Þetta kemur fram á vef Íslandsbanka. Alls nam aukning á kortaveltu í útlöndum á milli ára í apríl um 62 prósent en það er mesta aukning sem mælst hefur eins langt aftur og tölur ná. Aukningin á veltu innanlands var hins vegar lítil sem engin. Ástæðan er sú að um 18 prósent þjóðarinnar var erlendis á tímabilinu.
Hlutfall kortaveltu Íslendinga í útlöndum var 17,3 prósent af heildarkortaveltu Íslendinga í apríl og hefur hlutfallið aldrei verið hærra. Þessa aukningu má rekja bæði til aukningu utanlandsferða og að netverslun hefur stóraukist. Íslandsbanki telur þessa að þróun gefi skýra mynd um að einkaneysluvöxtur verði umtalsverður á næstunni.
Færri heima að strauja
Aukningu á kortaveltu Íslendinga í útlöndum endurspeglast í tölum Ferðamálastofu Íslands um brottfarir Íslendinga frá Keflavíkurflugvelli. Síðastliðinn apríl var næst fjölmennasti mánuður í sögu utanlandsferða og fóru um 62.200 Íslendingar erlendis í apríl eða um 18 prósent þjóðarinnar. Eini mánuðurinn þar sem utanlandsferðir hafa verið fleiri var í Júní 2016 en þá jukust utanlandsferðir Íslendinga til muna í kjölfar Evrópu meistaramótsins í knattspyrnu.
Á sama tíma og útlend kortavelta jókst um 62 prósent í apríl á milli ára jókst innlend kortavelta Íslendinga aðeins um 0,2 prósent að raunvirði sem er hægasti vöxtur á milli ára í tvö ár. Samkvæmt Íslandsbanka má að einhverju leyti rekja hægan vöxt innlendrar kortaveltu til þess að um 18 prósent þjóðarinnar var erlendis á tímabilinu.
Ferðamenn eyða minna á mann en áður
Heildar kortavelta erlendra greiðslukorta jókst um 25 prósent í krónum talið á milli ára á meðan heildarfjöldi erlendra gesta jókst um 62 prósent á sama tíma. Ef tekið er tillit til gengishreyfinga jókst kortaveltan hins vegar um 47 prósent sem er nær þróun á fjölda erlendra gesta.
Þetta gefur til kynna að ferðamenn taki frekar mið af neyslu í heimamynt sinni. Samkvæmt Íslandsbanka útskýrir þetta hvers vegna aukning á kortaveltu ferðamanna endurspeglast ekki í fjölgun þeirra á milli ára. Styrking krónunnar gagnvart erlendum gjaldmiðlum valdi því að erlendir ferðamenn sem reikna útgjöld í heimamynt eyða færri krónum en áður.
Þrátt fyrir þessa aukningu á kortaveltu Íslendinga í útlöndum og að neysla á hvern ferðamann hefur dregist saman hefur aldrei mælst eins mikill afgangur af kortaveltujöfnuði og í apríl síðastliðnum. Kortavelta Íslendinga í útlöndum nam 11,9 milljörðum í apríl og var kortaveltujöfnuður jákvæður um rúma 6,4 milljarða
Afganginn má rekja beint til fjölda ferðamanna hér á landi í samanborið við fjölda Íslendinga samkvæmt vef Íslandsbanka.