Gert er ráð fyrir því að þyrlur Landhelgisgæslunnar verði endurnýjaðar í fjármálaáætlun 2018-2022. Hins vegar stendur ekki til að auka fjárveitingar til Landhelgisgæslunnar til þess að manna þyrlurnar. Þetta segir í umsögn Landhelgisgæslunnar með fjármálaáætluninni.
Samkvæmt skýrslu innanríkisráðuneytisins vegna þyrlukaupa Landhelgisgæslunnar sér gæslan um rekstur á þremur þyrlum. Tvær þyrlur eru leigðar og ein þeirra, TF-LIF, er eign Landhelgisgæslunnar. TF-LIF var tekin í notkun árið 1986 og er því rúmlega 30 ára gömul en áætlaður líftími björgunarþyrla er 30 ár. Í fjármálaáætlun er gert ráð fyrir að festa kaup á þremur nýjum þyrlum og þær verði afhentar á árunum 2021-2023.
Í skýrslu innanríkisráðuneytisins kemur fram að til þess að Landhelgisgæslan geti sinnt lögboðnu hlutverki sínu þurfi hún að hafa tvær þyrlur til taks allan sólarhringinn allt árið um kring. Einnig er þar bent á að það þurfi sjö til átta áhafnir í vaktavinnu til að manna þyrlurnar allan sólarhringinn.
Miðað við núverandi fjárveitingar hefur Landhelgisgæslan fimm áhafnir til umráða. „Sem þýðir að allt árið er ein áhöfn til taks en aðeins um 35% ársins eru tvær áhafnir til taks. Af því leiðir að um 65% ársins er ekki hægt að sinna verkefnum á sjó og 55% ársins er ekki hægt að nýta þær þyrlur sem eru til taks vegna skorts á áhöfnum.“, segir í skýrslu innanríkisráðuneytisins.
Fjölgun ferðamanna fjölgar útköllum
Landhelgisgæslan sinnir verkefnum bæði á land og sjó og fjölgaði útköllum björgunarþyrla um 27 prósent á árunum 2010-2014. Fjölgun útkalla má meðal annars rekja til fjölgunar ferðamanna segir í skýrslu innanríkisráðuneytisins.
Í lok árs 2014 voru útköll vegna ferðamanna 89 og gert er ráð fyrir að þeim muni fjölga um 60 prósent fram til ársins 2020 og vera þá 320. Útköll á sjó hafa breyst lítið undanförnum árum. Flest útköll eru vegna slysa um borð í fiskveiðiskipum og fjöldi þeirra hefur breyst lítið. Útköllum vegna skemmtiferðaskipa hefur fjölgað og búist við að sú þróun haldi áfram á komandi árum.
Sama dag og rætt var um kaup á þyrlum til Landhelgisgæslunnar á Alþingi þurftu þyrlurnar að sinna fjórum útköllum. Fram kemur í frétt RÚV að björgunarþyrlurnar voru kallað út vegna tveggja bílslysa. Annað slysið átti sér stað á Suðurlandsvegi við Reynisfjall þegar húsbíll fauk út af veginum. Í bílnum voru sex erlendir ferðamenn. Fimm þeirra sluppu ómeiddir en sá sjötti slasaðist töluvert og var fluttur á Landspítalann í Fossvogi. Hitt slysið átti sér stað þegar bíll valt í Vatnsdal og voru fjórir erlendir ferðamenn fluttir slasaðir til Akureyrar
Einnig voru þyrlur kallaðar út til aðstoðar þegar bátur varð vélarvana norðan af Rekavík á Hornströndum og loks þurfti að koma manni til aðstoðar sem slasast hafði á fæti og lent í sjálfheldu við eggjatöku á Langanesi.