Tæplega sjö af hverjum tíu Íslendingum eru mótfallnir frumvarpi um sölu á áfengi í verslunum, samkvæmt nýrri könnun sem gerð var af Rúnari Vilhjálmssyni prófessor við HÍ með Félagsvísindastofnun HÍ. BSRB styrkti rannsóknina og greinir frá þessu.
69,2 prósent aðspurðra voru á móti því að frumvarpið, sem nú er til meðferðar á Alþingi, verði að lögum. 30,8 prósent aðspurðra voru því fylgjandi. Mest er andstaðan við frumvarpið meðal stuðningsfólks Vinstri grænna, 88,8 prósent. 82,6 prósent kjósenda Samfylkingarinnar eru á móti frumvarpinu og 77,8 prósent kjósenda Framsóknarflokksins.
Meirihluti stuðningsmanna allra flokka eru á móti frumvarpinu. Andstaðan er 54,4% hjá kjósendum Sjálfstæðisflokks, 54,8% hjá kjósendum Viðreisnar og 56,8% hjá kjósendum Bjartrar framtíðar. Þá eru 58,4% kjósenda Pírata andvígir því að frumvarpið nái fram að ganga.
Meiri andstaða er við frumvarpið meðal kvenna en karla. Næstum því fjórar af hverjum fimm konum, eða 77,8 prósent, eru á móti frumvarpinu, en um þrír af hverjum fimm körlum, eða 60,6%.
Andstaðan við frumvarpið eykst með hækkandi aldri, en í einum aldurshópi er meirihluti fylgjandi því að frumvarpið nái fram að ganga. Það er meðal fólks á aldrinum 18 til 29 ára, þar sem 53,7 prósent svarenda eru fylgjandi frumvarpinu.
Meiri andstaða er á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu, 74% miðað við 66,5% á höfuðborgarsvæðinu.
Í niðurstöðum könnunarinnar segir að mikill meirihluti landsmanna sé andvígur frumvarpinu, og niðurstöðurnar séu svipaðar fyrri könnunum um sama efni. Þá megi geta þess að allir helstu fagaðilar og stofnanir á þessu sviði hafi lagst gegn frumvarpinu. „Það vekur því nokkra furðu að tíma Alþingis sé varið í umfjöllun um mál af þessu tagi þing eftir þing. Vandséð er að flutningsmenn gangi erinda almennings eða samfélags í málarekstri sínum.“