Fasteignaeigendum á Íslandi hefur fækkað hratt á undanförnum árum og ríflega 10% færri búa í eigin íbúð í dag en í lok árs 2008. Þetta kemur fram í nýrri könnun Íbúðalánasjóðs, sem verður kynnt í hádeginu. Aftur á móti vilja fleiri nú kaupa húsnæði en áður.
Í desember 2008 sögðust 77,6 prósent svarenda búa í eigin húsnæði. Árið 2013 var hlutfallið 73,2% en nú eru það 70,1% svarenda sem segjast eiga húsnæðið sem þeir búa í.
Tæplega 93 prósent svarenda í könnuninni telja að það sé óhagstætt að vera á leigumarkaði, sem er gríðarleg fjölgun frá árinu 2011, þegar hlutfallið var 55,4%.
Um 15 prósent Íslendinga segjast vera að hugleiða að kaupa fasteign á næsta árinu, en þetta hlutfall breytist ekki mikið þegar litið er til eigna- og skuldastöðu fólks. Hjá þeim sem geta safnað talsverðu sparifé er þetta hlutfall þó hæst, 21 prósent þess fólks segist öruggt eða líklegt að það muni huga að fasteignakaupum á næstu 12 mánuðum. Hjá fólki sem safnar skuldum eða notar sparifé til að ná endum saman er þetta hlutfall 15 prósent.