Fjarskipti, móðurfélag Vodafone, vill koma því á framfæri að ekki verði hópuppsagnir í tengslum við samruna félagsins og 365 miðla. Þeim stöðugildum sem fækkað verður, alls 41 talsins, verður fækkað í gegnum starfsmannaveltu á 12-18 mánaða tímabili en ekki með uppsögnum.
Kjarninn greindi frá því fyrr í dag að í trúnaðarupplýsingum sem birtar voru í samrunaskrá félaganna tveggja komi fram að „vegna samlegðaráhrifa er það mat Fjarskipta að stöðugildum á einingum sem færast yfir til Fjarskipta hf. frá 365 muni fækka um 41.“ Þetta á að spara sameinuðu félagi 275 milljónir króna á ári vegna sparnaðar í launum og starfsmannakostnaði.
Með samrunanum eykst velta Fjarskipta um 8,5 milljarða króna og stöðugildum á Íslandi fjölgar um 68 prósent, úr 305 stöðugildum í 512.
Í fyrstu útgáfunni af samrunaskránni sem eftirlitið birti voru trúnaðarupplýsingar úr skránni aðgengilegar, þar á meðal upplýsingar um hversu mörg stöðugildi myndu hverfa við samrunann. Ný útgáfa án trúnaðarupplýsinganna var sett á vefinn í stað hinnar síðar sama dag. Kjarninn hefur upprunalegu útgáfuna undir höndum og þar koma meðal annars fram upplýsingarnar um vænta fækkun stöðugilda og þann sparnað sem það á að skila.
Stefán Sigurðsson, forstjóri Fjarskipta, sagði í Kastljósi 1. mars síðastliðinn að ekki stæði til að segja upp fólki. Þar sagði Stefán: „Við tökum alla starfsmennina yfir.[...]Og í rauninni verður engum sagt upp en við gerum ráð fyrir því að með tímanum náum við þessari hagræðingu. Við tökum tólf til átján mánuði í þetta. En þetta er ekki sameining til að segja upp fólki heldur erum við að ná hagkvæmi í tæknilegum innviðum, við munum ná hagkvæmni í eiginlega öllum okkar stoðeiningum með tímanum en uppsagnir eru ekki í deiglunni.“
Í samrunaskránni segir að alls eigi að nást kostnaðarsamlegð upp á rúman milljarð króna. Af þeirri tölu á að nást fram 562 milljóna króna í tæknilegri samlegð.