Vorfundur miðstjórnar Framsóknarflokksins fór fram í dag. Búist var við átakafundi, enda flokkurinn í sárum eftir mikil innanflokksátök, verstu útreið sína í kosningum í sögunni og algjöra útilokun frá formlegum stjórnarmyndunarviðræðum. Fundurinn stóð undir þeim væntingum sem til hans voru gerðar. Fylkingar sem styðja annars vegar sitjandi formann og hins vegar fyrrverandi formann tókust á.
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, hélt ræðu við upphaf fundar og kallaði eftir meiri samstöðu í þingflokki Framsóknarflokksins. Hann gagnrýndi þá sem hefðu gagnrýnt niðurstöðu síðasta flokksþings, þegar Sigurður Ingi felldi Sigmund Davíð Gunnlaugsson úr formannsstóli í dramatískri formannskosningu. Hollt og gott væri að flokksmenn væru ósammála og að þeir rökræddu um málin, en ákvörðun sé þó alltaf tekin með lýðræðislegum hætti á endanum og það verði að virða.
Samkvæmt endursögn RÚV úr ræðu Sigurðar Inga sagði hann svo: „ En það virðist ekki öllum gefið að geta sætt sig við það sem flokksmenn ákveða með lýðræðislegum aðferðum. Í Morgunblaðinu í gær mátti lesa hvaða augum sumir líta flokkinn okkar og ákvarðanir okkar flokksmanna. Þar segir einhver að rán hafi átt sér stað í haust og þeir, sem á að hafa verið rænt frá, fyrirgefi ekki slíkan gjörning, ekki núna, ekki seinna! Auga fyrir auga, tönn fyrir tönn, hefur verið viðhaft af minna tilefni. Það sem ég spyr mig að er; er þetta samvinnumaður sem talar svona, þetta er ekki sérlega framsóknarleg nálgun? Og hvaða fyrirgefningu er verið að tala um, við hvern á að segja „sorrí“? Hin almenna framsóknarmann, meirihluta fulltrúa á flokksþingi? Á flokksþingi í haust var tekist á. Svo virðist sem sumir líti á niðurstöðu þess þings sem einhvers konar svik við hluta flokksins. Það er að segja, að meirihlutinn hafi svikið minnihlutann. Og nú sé bara spurningin hvenær þau svik verði leiðrétt.“
Sigmundur Davíð sagði við RÚV að honum hafi þótt ræða Sigurðar Inga „ekkert sérstök“. Það væri ekki búið að gera upp það sem hefði átt sér stað á síðasta flokksþingi og það hafi áhrif á sambandið milli hans og sitjandi formanns. Miðstjórnarfundurinn samþykkti að halda flokksþing í janúar næstkomandi og sagði Sigmundur Davíð það vera „sigur“. Hann vildi ekki svara því með afgerandi hætti hvort hann myndi bjóða sig fram til formanns á ný á því flokksþingi. „Ég ætla að meta það hvernig málin þróast næstu misserin,“ sagði Sigmundur Davíð við RÚV.