Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins á Alþingi mun ekki styðja óbreytta þingsályktunartillögu Benedikts Jóhannessonar fjármála- og efnahagsráðherra um fjármálaáætlun til næstu fimm ára.
Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.
Þar ræður mestu gagnrýni þingflokksins og meirihluta fjárlaganefndar á áform fjármálaráðherra um að hækka virðisaukaskattstig (VSK) ferðaþjónustunnar með þeim hætti sem tillagan gerir ráð fyrir, úr 11% í 22,5%, þegar á næsta ári.
Áður hafði komið fram að meirihluti fjárlaganefndar Alþingis vildi fresta hækkuninni á VSK.
Benedikt sagði í viðtali við RÚV í gær að hann vildi ekki breyta áformum um hækkun á VSK. Hækkuninni er meðal annars ætlað að vinna gegn styrkingu krónunnar, sem hefur verið afar hröð undanfarin misseri, ekki síst vegna gjaldeyrisstreymis frá ferðaþjónustunni. Greinilegt er að meiningarmunur er milli stjórnarflokkanna um þessi mál, og þá einkum Sjálfstæðisflokksins og Viðreisnar.