Unity Technologies, sem framleiðir meðal annars verkfæri fyrir tölvuleikjaframleiðendur, ekki síst leiki fyrir snjallsíma, er nú verðmetið á 2,8 milljarða Bandaríkjadala, eða sem nemur um 300 milljörðum króna.
Wall Street Journal greindi frá þessu í gær, en fyrirtækið er nú með fjármögnun á lokastigum upp á 400 milljónir Bandaríkjadala, eða um 40 milljarða króna, og er einkafjárfestasjóðurinn Silver Lake að leiða þá fjármögnun, samkvæmt Wall Street Journal. Áður höfðu sjóðirnir Sequoia Capital og Draper Fisher Jurveston komið að fjármögnun fyrirtækisins, að því er segir í umfjölluninni.
Íslendingurinn Davíð Helgason (lengst til hægri á meðfylgjandi mynd) er einn eigenda fyrirtækisins og tók þátt í því að stofna það árið 2003, ásamt Dana og Þjóðverja, Joachim Ante og Nicholas Francis. Fyrirtækið hefur vaxið hratt á undanförnum árum og lengst af undir hans stjórn, í hlutverki forstjóra.
Í ítarlegu viðtali við Viðskiptablaðið í júlí árið 2014 kom fram hjá Davíð að hann stýrði þá 300 manna fyrirtæki í San Francisco sem teygði anga sína til 15 landa, en Davíð var þá forstjóri fyrirtækisins. Hann fór úr því hlutverki, síðar á árinu, en tók við öðru stjórnendahlutverki sem yfirmaður stefnumótunar og samskipta (EVP). Það hefur vaxið mikið síðan, og þykja framtíðarhorfur þess bjartar.
Fátt bendir til annars en að leikjaiðnaðurinn í heiminum muni vaxa hratt á næstu misserum, en spár gera ráð fyrir að heildarveltan á næsta ári verði tæplega 110 milljarðar Bandaríkjadala, eða sem nemur um 11 þúsund milljörðum króna.
Davíð er sonur Sigrúnar Davíðsdóttur, fréttakonu RÚV, og hálfbróðir Egils Helgasonar fjölmiðlamanns.