Á leiðtogafundi aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins í Brussel síðastliðinn fimmtudag sagði Donald Trump forseti Bandaríkjanna að flest aðildarríki NATO skuldi verulegar fjárhæðir sem þau hafi skuldbundið sig til að verja til varnarmála. Hvert og eitt aðildarríki hafi fyrir mörgum árum lofað, sagði forsetinn, að árlega skyldu tvö prósent af landsframleiðslu renna til varnar-og öryggismála en það hafi ekki gengið eftir. Þessi fullyrðing Bandaríkjaforseta, um loforðið, virðist stangast á við raunveruleikann.
Donald Trump kom við í Brussel í sinni fyrstu utanlandsferð eftir að hann tók við völdum í janúar. Við þetta tækifæri var tekin í notkun ný bygging sem hýsir höfuðstöðvar Atlantshafsbandalagsins í Brussel, gamla aðalbyggingin er frá 1967 og var þá sögð til bráðabirgða. Trump hrósaði nýbyggingunni en sagðist ekki þora að spyrja um kostnaðinn.
NATO er rottuhola
Leiðtogar NATO ríkjanna höfðu beðið komu forsetans með eftirvæntingu. Í kosningabaráttunni fór Trump hörðum, og á köflum niðrandi, orðum um NATO. Kallaði bandalagið rottuholu og úrelt fyrirbæri. Mörg fleiri orð, neikvæð, viðhafði forsetinn um NATO meðan kosningabaráttan stóð yfir. Í ljósi þessara ummæla vissu leiðtogarnir ekki við hverju þeir mættu búast í ræðu forsetans í Brussel. Héldu kannski að hann myndi nota tækifærið til að lýsa yfir eindregnum stuðningi við NATO samstarfið en ræða forsetans var mestanpart á öðrum nótum.
Skulda milljarða
Eins og vænta mátti fór Donald Trump mikinn í ræðu sinni og sparaði ekki stóru orðin. Athygli vöktu ummæli hans um Rússland, ,,Rússland er ógn“ sagði forsetinn, sem fór jafnframt mörgum orðum um hryðjuverkaógnina sem hann sagði mestu áskorun NATO. Síðan sneri hann talinu að fjárhag NATO, það kom ekki á óvart. Trump hefur margoft rætt um þann ójöfnuð sem ríkir í framlögum aðildarríkjanna þar sem hlutur Bandaríkjanna vegur lang þyngst. Trump sagði 23 af 28 aðildarríkjum bandalagsins skulda milljarða á milljarða ofan til sameiginlegra sjóða. ,,Margra ára uppsöfnuð skuld“ sagði forsetinn. Mörgum sem hlýddu á ræðuna kom á óvart hvað forsetanum varð tíðrætt um hin svonefndu tvö prósent eins og þau væru eins konar árgjald eða félagsgjald. Hvort hann vissi ekki betur eða vildi útleggja hlutina með þessum hætti vissi enginn viðstaddra.
Tvö prósentin fyrst nefnd um síðustu aldamót
Framlag sem næmi tveimur prósentum árlegrar þjóðarframleiðslu var fyrst nefnt, sem æskilegt viðmið, innan aðildarríkja NATO árið 2001, á leiðtogafundi í Prag. Þá höfðu Bandaríkin miklar áhyggjur af árvissum niðurskurði evrópskra ríkja til varnarmála. Bretar og Frakkar studdu viðhorf Bandaríkjamanna en þeir síðastnefndu standa í dag straum af um 70 prósentum útgjalda bandalagsins. Á áðurnefndum fundi var engin formleg ákvörðun tekin en í fundargerð talað um ,,heiðursmannasamkomulag“. ,,Tvö prósentin“ voru næst rædd á leiðtogafundi í Riga í Lettlandi árið 2006, áhyggjurnar þær sömu og fimm árum fyrr: niðurskurður. Bæði George W. Bush og Barack Obama lýstu margsinnis óánægju sinni með það sem þeir kölluðu viljaleysi Evrópuríkjanna til að leggja sitt af mörkum til varnarmála. Það gerði Hillary Clinton líka í kosningabaráttunni fyrir forsetakosningarnar vestra í fyrra. Leiðtogar flestra ríkjanna innan NATO litu þannig á, eftir að járntjaldið féll, að ekki væri sama þörf og áður fyrir að halda uppi fjölmennum her. Mörg ríki skáru niður fjárveitingar til hermála, það bitnaði ekki síst á tækjakaupum. Niðurskurðurinn jókst svo til muna eftir árið 2003. Umræðan um tvö prósentin var sprottin úr þessum jarðvegi.
Hótanir Trumps
Þótt fyrrverandi forsetar Bandaríkjanna hafi verið ósáttir við niðurskurð NATO ríkjanna í Evrópu hafa þeir aldrei talað um annað en samstöðu: einn fyrir alla og allir fyrir einn. Fyrr en nú. Donald Trump hefur að undanförnu margoft sagt að það sé spurning hversu miklar skuldbindingar Bandaríkjamenn vilji og geti tekið á sig gagnvart þeim ríkjum sem ekki standi við tveggja prósenta framlagið. Þessar yfirlýsingar forsetans hafa vægast sagt mælst illa fyrir hjá leiðtogum annarra NATO ríkja sem segja þetta ekkert annað en hótanir.
Af hverju tvö prósent?
Danska dagblaðið Politiken fjallaði fyrir nokkrum dögum ítarlega um ,,tveggja prósenta ákvörðunina“. Í samtölum við fyrrverandi og núverandi starfsmenn NATO hefur komið í ljós þegar þeir skoðuðu framlög ríkjanna til varnarmála á árunum kringum aldamótin, og fram til ársins 2003, að í flestum tilvikum námu framlögin í kringum tvö prósent. Sum ríki voru talsvert undir tveimur prósentum og önnur nokkuð yfir. Þannig var viðmiðið fundið. Donald Trump hefur hinsvegar talað um tvö prósentin sem fastlagt árgjald sem flestir hafi svo svikist um að greiða.
Óeðlilegt viðmið
Í viðtölum, meðal annars við blaðamenn Politiken, hafa margir lýst þeirri skoðun að þjóðarframleiðsla sé óeðlilegt viðmið þegar kemur að framlögum til varnarmála. Bent hefur verið á að þegar kreppan skall á í Grikklandi og þjóðarframleiðslan hrundi var landið skyndilega komið langt yfir tveggja prósenta viðmiðið, þótt framlagið væri hið sama og áður. Svo annað dæmi sé nefnt hefur framlag Dana í krónum talið hækkað, þótt prósentutalan hafi lækkað, aukin þjóðarframleiðsla veldur þessu.
Niðurstaðan í Brussel
Eins og áður sagði ríkti mikil eftirvænting meðal leiðtoga NATO ríkjanna þegar Donald Trump hóf ræðu sína í nýjum höfuðstöðvum bandalagsins. Eftirá voru flestir sáttir við sumt í ræðu forsetans, en ekki jafn hrifnir af öðru. Þau ummæli forsetans að af Rússlandi stafi ógn þóttu jákvæð, eins þegar hann sagði að allir yrðu að standa saman í baráttunni gegn hryðjuverkum. Leiðtogunum þótti líka gott að heyra að forsetinn talaði á allt öðrum, og jákvæðari nótum um NATO, en hann hafði áður gert. Það neikvæða var umfjöllunin (sem sumir kölluðu skammarræðu) um fjármálin og að hann skyldi ekki afdráttarlaust lýsa yfir að NATO ríkin stæðu saman, öll sem eitt, ef á þyrfti að halda. Margir þjóðarleiðtoganna sem voru á fundinum í Brussel hafa, í viðtölum heima fyrir, lýst sig samþykka því að auka framlög til varnarmála, heimsmyndin sé óneitanlega önnur en hún var fyrir örfáum árum. Einn ráðherranna sem var í Brussel orðaði þessa breyttu heimsmynd svo: ,,rússneski björninn hefur rumskað og skriðið úr hýði sínu. Hvort og hvenær hann rís upp á afturlappirnar, rymur og slær með hramminum er óvíst. En ef það gerist er betra að vera viðbúinn.“