Píratar vilja að frumvarp ríkisstjórnarinnar um jafnlaunavottun verði sent til ríkisstjórnarinnar til frekari meðferðar og vísað frá þingi. Þetta kemur fram í minnihlutaáliti fulltrúa Pírata í allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis, Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur og Gunnars Ingibergs Guðmundssonar.
Þar kemur fram að þau styðji tilgang og markmið frumvarpsins, um að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. „Það er því miður að mál þetta skuli fært til 3. umræðu og atkvæðagreiðslu þegar ljóst verður að teljast að málið er hvergi nærri tilbúið til afgreiðslu.“
Tíminn til umfjöllunar um málið hafi verið af mjög skornum skammti og margir þættir séu enn óskýrðir. Þá hafi engin málefnaleg rök komið fram sem rökstyðji að málið þurfi að afgreiða nú.
„Málsmeðferðin hefur leitt til þess að ekki hefur verið raunhæft að skoða breytingar sem leitt hefðu til þess að frumvarpið yrði unnið í sátt allra aðila sem það snertir. Ef frumvarpið á að ná því markmiði sem að er stefnt er nauðsynlegt að málið sé unnið vel og í sátt. Verði frumvarpið að lögum á þessum tímapunkti verður að teljast ólíklegt að það nái markmiði sínu.“
Af þessum sökum leggja þau til að frmvarpinu verði vísað frá og það sent til ríkisstjórnarinnar.
Meirihluti allsherjar- og menntamálanefndar hefur gert breytingartillögu á jafnlaunavottuninni þar sem kveðið er á um að Stjórnarráð Íslands skuli vera fyrsti aðilinn til að undirgangast jafnlaunavottun. Píratar segja að ekki hafi farið fram greining á því hver kostnaður ríkissjóðs verði af því, en þau telja nauðsynlegt að kostnaðarmat liggi fyrir áður en þetta verður að lögum.