Hagstofa Íslands gerir ráð fyrir því að hagvöxtur á Íslandi verði sex prósent á þessu ári. Þetta kemur fram í nýrri þjóðhagsspá hennar
https://hagstofa.is/utgafur/frettasafn/thjodhagsspa/thjodhagsspa-a-sumri-2017/
sem birt var í dag. Hagstofan reiknar með því að talsvert dragi úr hagvexti á árinu 2018 og að hann verði þá 3,3 prósent. Árin 2019 og 2020 verði hann síðan 2,5-2,8 prósent.Í frétt Hagstofunnar segir að einkaneysla sé nú talin aukast meira í ár og á næsta ári en áður var gert ráð fyrir. Hún reiknar með að einkaneysla aukist um 6,9 prósent á þessu ári, fjárfesting um 9,8 prósent og samneysla um 1,8 prósent. „Líkt og í fyrri spá er búist við að það hægi á vexti einkaneyslu þegar dregur úr vexti þjóðarbúsins síðari hluta spátímans. Það hægir á vexti fjárfestingar á spátímanum, stóriðjutengd fjárfesting dregst saman árin 2018–2020 og það dregur úr vexti almennrar atvinnuvegafjárfestingar en íbúða-fjárfesting eykst talsvert.“
Hagvöxtur var 7,2 prósent árið 2016. Það var langmesti hagvöxtur sem mælst hefur á Íslandi frá árinu 2007 og sá þriðji mesti á einu ári í tæp 30 ár. Einungis árin 2004 og 2007 skiluðu meiri hagvexti. Þjónustuútflutningur var þá í fyrsta sinn stærri hluti af landsframleiðslu en vöruútflutningur. Ástæðan er aukning í ferðaþjónustu.