Í nýjustu fundargerð Peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands, frá fundum nefndarinnar 15. og 16. maí, kemur fram að nefndin telji að „peningastefnan hvorki gæti né ætti að reyna að stöðva óhjákvæmilega aðlögun raungengis“ og er þar vitnað til styrkingar krónunnar gagnvart helstu viðskiptamyntum.
Styrkingin hefur verið stöðug undanfarin misseri. Bandaríkjadalur er nú kominn undir 100 krónur (99,7) og evran í 111 krónur. Á tveimur árum er styrkingin um 30 prósent.
Hinn 17. maí voru meginvextir Seðlabanka Íslands lækkaður úr 5 prósent í 4,75 prósent en verðbólga hefur nú verið í 40 mánuði undir 2,5 prósent verðbólgumarkmiði og mælist nú 1,7 prósent.
Í nefndinni eru Már Guðmundsson seðlabankastjóri, Arnór Sighvatsson aðstoðarseðlabankastjóri, Þórarinn G. Pétursson aðalhagfræðingur, Katrín Ólafsdóttir, lektor við HR, og Gylfi Zoega prófessor við HÍ.
Fundargerðinni segir, þar sem vikið er að styrkingunni krónunnar: „Nefndin ræddi nýlega gengisþróun en gengi krónunnar hafði hækkað nokkuð frá fundinum í
mars. Nefndin taldi jákvætt að dregið hefði úr skammtímasveiflum í genginu frá því í byrjun
apríl. Sem fyrr voru nefndarmenn sammála um að gengishækkunin endurspeglaði að mestu
leyti efnahagslega grunnþætti sem rekja mætti til viðskiptakjarabata og kröftugs útflutnings,
sérstaklega í ferðaþjónustu, sem skiluðu sér í verulegum afgangi á viðskiptum við útlönd. Töldu
þeir að peningastefnan hvorki gæti né ætti að reyna að stöðva óhjákvæmilega aðlögun
raungengis vegna þessa. Bent var á að fráviksdæmi sem birt var í Peningamálum sýndi vel áhrif
gengis krónunnar í aðlögun þjóðarbúskaparins að búhnykkjum. Nefndarmenn voru hins vegar
sammála um að Seðlabankinn ætti eftir sem áður að grípa inn í á gjaldeyrismarkaði til að draga
úr sveiflum eftir því sem hann teldi tilefni til,“ segir í fundargerðinni.
Þingmenn hafa töluvert kallað eftir því að gripið verði til aðgerða til að sporna gegn styrkingu krónunnar, sem nú er að farin að hafa neikvæð áhrif á mörg útflutningsfyrirtæki. Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, er einn þeirra, en hann hefur kallað eftir því að Seðlabankinn lækki vexti „myndarlega“ til að vinna gegn styrkingu krónunnar.
Í svipaðan streng, í umræðum um hvað væri hægt að gera til að vinna gegn styrkingu, hefur Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, gripið.
Útlit er fyrir að gjaldeyrisinnstreymi verði áfram mikið, og styrking krónunnar því líklega áfram. Vöxturinn í ferðaþjónustu hefur ýtt undir mikinn afgang af viðskiptum við útlönd en vöru- og þjónustujöfnuður þjóðarbússins var jákvæður um 155 milljarða í fyrra. Útlit er fyrir enn meiri vöxt ferðaþjónustunnar á þessu ári, en á fyrstu mánuðum ársins hafa mun fleiri ferðamenn heimsótt landið en spár gerðu ráð fyrir.
Í fyrra heimsóttu 1,8 milljónir ferðamanna landið en á þessu ári gera spár ráð fyrir fjölda upp á 2,3 milljónir.