Nefndarmenn í Peningastefnunefnd ræddu það sína á milli á fundum nefndarinnar, 15. og 16. maí síðastliðinn, að hækkunin á fasteignaverði, sem hefur átt sér stað að undanförnu, gæti gengið til baka á næstu árum. Þetta kemur fram fram í fundargerð nefndarinnar frá fyrrnefndum fundum, sem birt var í gær.
Í nefndinni eru Már Guðmundsson seðlabankastjóri, Arnór Sighvatsson aðstoðarseðlabankastjóri, Þórarinn G. Pétursson aðalhagfræðingur, Katrín Ólafsdóttir, lektor við HR, og Gylfi Zoega prófessor við HÍ.
Fasteignaverð hefur hækkað verulega og er í sögulegum hæstu hæðum. Hvergi í þróuðum ríkjum hefur það hækkað meira en á Íslandi að undanförnu en fasteignaverð hefur hækkað um meira en 20 prósent á undanförnu ári. Ástæðan er meðal annars mikið ójafnvægi á milli framboðs og eftirspurnar, en mikil vöntun er á fasteignum inn á markað, einkum á höfuðborgarsvæðinu.
Í fundargerðinni er ekki vísað til nafna nefndarmanna, þegar rætt erum umræður þeirra á milli, en fram kemur í fundargerðinni að mikil hækkun húsnæðisverðs hafi borið á góma. „Töldu þeir líklegt að hækkun húsnæðisverðs umfram almennt verðlag og laun myndi hugsanlega ganga til baka innan fárra ára eða að a.m.k. gæti hækkunin stöðvast fyrr en nú væri gert ráð fyrir þegar framboð húsnæðis hefði náð eftirspurn, enda fasteignaverð nálægt sögulegu hámarki. Gerist það án þess að gengishækkunin að undanförnu gangi til baka gæti samspil gengisþróunar og húsnæðisverðs leitt til hraðrar hjöðnunar verðbólgu,“ segir í fundargerðinni.
Ákveðið var að lækka meginvexti úr 5 í 4,75 prósent, eftir þessa fundi, en verðbólgan mælist nú 1,7 prósent. Án húsnæðisliðarins er hún hins vegar neikvæð um 2,5 prósent.
Að mati nefndarinnar voru bæði rök fyrir því að halda vöxtum óbreyttum að þessu sinni og að
lækka þá um 0,25 prósentur. „Allir nefndarmenn voru sammála um að helstu rökin fyrir að
halda vöxtum óbreyttum væri ör vöxtur efnahagsumsvifa og skýr merki um spennu í
þjóðarbúskapnum sem kölluðu á peningalegt aðhald til að tryggja verðstöðugleika til
meðallangs tíma. Erfitt væri því að sjá að núverandi staða og nærhorfur kölluðu á peningalega
örvun. Að sama skapi væri mikilvægt að hafa í huga að töluverð slökun væri á aðhaldi
opinberra fjármála og því vandséð hvaðan hagstjórnarlegt aðhald ætti að koma ef ekki frá
peningastefnunni.
Helstu rök sem fram komu á fundinum fyrir því að lækka vexti voru þau að raunvextir bankans
hefðu hækkað frá síðasta fundi nefndarinnar. Á sama tíma hefði gengishækkun krónunnar
einnig haft í för með sér aukið aðhald að eftirspurn og umsvifum. Þetta tvennt skapaði svigrúm
til að lækka vextina. Nokkur umræða varð um það hversu mikið aðhald væri fólgið í
gengishækkuninni og töldu sumir nefndarmenn það vera umtalsvert,“ segir í fundargerðinni.
Að mati nefndarmanna hefur fyrirhuguð hækkun á virðisaukaskatti á ferðaþjónustu, úr 11 prósent í 22,5 prósent, sem á að taka gildi 1. júlí á næsta ári, þegar haft þau áhrif á ferðaþjónustuna að fyrirtæki eru farin að hægja á fjárfestingum.