Sjálfstæðisflokkurinn mælist stærsti flokkur landsins í nýrri könnun MMR. Fylgi flokksins er nú 25,6 prósent. Það er mjög svipað fylgi og flokkurinn mældist með í lok apríl. Vinstri græn mælast sem fyrr næst stærsti flokkur landsins en 21,4 prósent kjósenda segja að þeir myndu kjósa flokkinn ef kosið yrði í dag. Það er tveimur prósentustigum minna fylgi en flokkurinn var með fyrir mánuði síðan.
Þeir tveir flokkar sem sitja með Sjálfstæðisflokki í ríkisstjórn, Viðreisn og Björt framtíð, halda áfram að mælast með fylgi sem skilar þeim annað hvort rétt svo, eða alls ekki, mönnum á þing ef kosið yrði í dag. Viðreisn mælist með 5,5 prósent fylgi sem er svipað og flokkurinn hefur verið að mælast með á undanförnum mánuðum. Viðreisn, sem bauð í fyrsta sinn fram í síðustu kosningum, fékk 10,5 prósent atkvæða þegar talið var upp úr kjörkössunum þá, og sjö þingmenn. Björt framtíð mælist nú með 3,4 prósent fylgi, sem er ekki nægjanlegt til að skila flokknum manni á þing ef kosið yrði í dag. Fylgi Bjartrar framtíðar er nú á pari við fylgi Flokks fólksins, sem mælist með 3,2 prósent fylgi.
Píratar bæta lítillega við sig á milli mánaða og eru nú með 14 prósent fylgi. Framsókn mælist með 12,2 prósent og Samfylking með 9,3 prósent.
Stuðningur við ríkisstjórnina heldur áfram að vera mjög lítill. Annan mánuðinn í röð mælist hann einungis 31,4 prósent. Hann hefur mest mælst 37,9 prósent í febrúar. Til samanburðar mældist stuðningur við ríkisstjórn Sigmundar Davíð Gunnlaugssonar 59,9 prósent skömmu eftir að hún tók við völdum árið 2013 og stuðningur við ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur mældist 56,1 prósent snemma árs 2009.
Samanlagt fylgi stjórnarflokkanna þriggja, sem fengu minnihluta atkvæða í síðustu kosningum en samt eins manns meirihluta í þinginu vegna áhrifa kjördæmaskipaninnar, mælist nú 34,1 prósent. Þeir fengu samtals 46,7 prósent atkvæða í síðustu kosningum.