Ráðuneyti eru ýmist búin að skipta yfir í tvinn- eða tengitvinnbíla eða hyggjast gera það við næstu kaup á ráðherrabílum. Þetta má lesa út úr svörum ráðherra við fyrirspurnum Svandísar Svavarsdóttur, þingflokksformanns Vinstri grænna, um bifreiðakaup ráðherranna.
Svandís spurði ráðherrana eftirfarandi spurninga:
- Hversu margar bifreiðar hafa verið keyptar til afnota fyrir ráðuneytið frá því í ársbyrjun 2014, af hvaða tegund eru þær, hvaða eldsneyti notar hver þeirra, hver er uppgefin eldsneytisnotkun hverrar þeirrar og hver er uppgefin losun hverrar þeirra á koltvíoxíði (CO2)?
- Hvernig samræmast bifreiðakaup fyrir ráðuneytið markmiði í tillögu til þingsályktunar um aðgerðaáætlun um orkuskipti (146. mál) um að fimmtungur bifreiða í eigu opinberra aðila verði vistvænn fyrir árið 2020.
- Hefur krafa um að bifreiðar sem keyptar eru til nota fyrir opinbera aðila nýti endurnýjanlega orkugjafa verið í útboðsskilmálum vegna bifreiðakaupa ráðuneytisins eða er áformað að slíkir skilmálar verði settir?
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra segir að við útboð vegna bifreiðakaupa í framtíðinni muni forsætisráðuneytið taka mið af ályktun Alþingis um aðgerðaáætlun um orkuskipti, og það var líka gert við síðustu endurnýjun ráðherrabíls.
„Áformað er að við næstu endurnýjun bifreiðar ráðuneytisins verði gerð enn ríkari krafa um umhverfissjónarmið, þ.m.t. um nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa, og að útboðsskilmálar samræmist umhverfismarkmiðum sem Alþingi setur. Þar verði sérstaklega litið til rafbíla eða tengiltvinnbíla,“ segir Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra í svari sínu.
Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra svarar fyrir velferðarráðuneytið, og þar kemur fram að ráðuneytið er það eina þar sem bílar ráðherra hafa ekki verið endurnýjaðir frá árinu 2014, heldur voru bílarnir báðir keyptir árið 2008. „Fyrir liggur að komið er að endurnýjun á báðum bifreiðum ráðuneytisins og er gert ráð fyrir að krafa um endurnýjanlega orkugjafa verði í útboðsskilmálum.“
Kristján Þór Júlíusson menntamálaráðherra segir að gert sé ráð fyrir því að gerð verði krafa um sjálfbæra orkugjafa þegar skipt verður um bíl næst.
Guðlaugur Þór Þórðarson segir að bifreiðakaup muni samræmast markmiðinu um vistvæna bíla, og Jón Gunnarsson samgönguráðherra segir nýjan bíl ráðuneytisins ekki falla undir skilgreiningu um vistvæna bíla, en gerð sé krafa um að eyðsla sé ekki umfram 7,5 lítra á 100 kílómetra. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra svarar fyrir atvinnuvegaráðuneytið, þar sem er þegar einn vistvænn bíll. Svo verður einnig í framtíðinni, að hennar sögn.
Björt Ólafsdóttir umhverfisráðherra segir að ráðherrabíll ráðuneytisins sé með tengitvinnvél og noti að miklu leyti raforku í innanbæjarakstri. „Þess ber þó að geta að núverandi ráðherra hefði fremur valið bíl sem gengur að öllu leyti fyrir endurnýjanlegum eða vistvænum orkugjafa.“